Fjölmargir hafa hvatt til sniðgöngu. Frá þessu er greint í frétt á vef RÚV í dag.
Fram hefur komið að kostnaður RÚV við Söngvakeppnin, undankeppni Eurovision á Íslandi, nam um 125 milljónum króna. Innkoma úr símakosningu úr Söngvakeppninni skilaði um 37 milljónum sem er um þriðjungur af kostnaði Söngvakeppninnar. Við það bætast svo tekjur af auglýsingasölu og miðasölu á undanúrslitakvöldin, dómararennsli og úrslitakvöldið.
Ekki hefur komið fram hvað þátttaka Íslands í Söngvakepninni og Eurovision mun kosta samanlagt í ár en í fréttum um keppnina í fyrra kom fram að þá áætlaður heildarkostnaður við Söngvakeppnina og Eurovision var um 150 milljónir króna. Í frétt á vef RÚV sagði að undanfarin ár hafi keppnin komið út á núlli og að tekjur af auglýsingum, kostunum, miðasölu og símakosningu hafi staðið undir kostnaði.
Hvetja til sniðgöngu
Fjöldi hefur hvatt til sniðgöngu vegna þátttöku Ísraels í keppninni í ár og framgöngu þeirra á Gasa frá því í október á síðasta ári og fyrir það.
Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, ákváðu fyrr á árinu að meina Ísrael ekki þátttöku í keppninni. Sú ákvörðun vakti furðu margra, í ljósi þess að Rússlandi hefur verið meinuð þátttaka í keppninni frá innrás Rússa í Úkraínu árið 2022.

Keppnin hefst klukkan 19 í kvöld og hefur viðbúnaður verið aukinn í Malmö vegna bæði keppninnar og vegna mótmælafunda sem skipulagðir hafa verið vegna hennar og stríðsins á Gasa.
Hera Björk Þórhallsdóttir keppir fyrir Íslands hönd í kvöld og flytur lagið Scared of Heights. Hún er númer átta í lagaröð kvöldsins. Engar líkur eru taldar á því að Hera Björk komist áfram í aðalkeppnina sem fer fram á laugardaginn.