Innlent

„For­seta­fram­bjóðandi er á villi­götum“

Jakob Bjarnar skrifar
Róbert Spanó segir viðbrögð Arnars Þórs við skopmynd Halldórs áhyggjuefni.
Róbert Spanó segir viðbrögð Arnars Þórs við skopmynd Halldórs áhyggjuefni. vísir/vilhelm/mannréttindadómsstóll evrópu

Mál Arnars Þórs Jónssonar forsetaframbjóðanda á hendur Halldóri Baldurssyni skopmyndateiknara og Vísis varðar tjáningarfrelsið og því ekki úr vegi að kalla til Róbert Spanó, lagaprófessor og fyrrum forseta Mannréttindadómsstóls Evrópu til að á lögfræðilegt álit á málinu.

Listræn tjáning nýtur ríkar mannréttindaverndar

Róbert féllst á það. „Í mínum huga er forsetaframbjóðandinn á villigötum í gagnrýni sinni,“ segir Róbert og hefur engar vöflur á.

„Satíra í formi skopmynda sem beinist að opinberum persónum nýtur ríkrar verndar tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.“

Að sögn Róberts eru gerðar mjög ríkar kröfur til þess að heimilt sé að takmarka slíka tjáningu, þótt tjáningarfrelsið sé ekki án takmarkana.

„Meta verður skopmynd eins og þessa heildstætt og í samhengi við atburði líðandi stundar, að hverjum hún beinist og framsetningu hennar að öðru leyti. Opinberar persónur eins og frambjóðandinn verða að þola slíka framsetningu með ríkari hætti en aðrir.“

Þá segir Róbert að skopmynd sem beinist að opinberum persónum telst lögfræðilega til listrænnar tjáningar sem nýtur ríkar mannréttindaverndar.

Umrædd skopmynd Halldórs sem birtist á Vísi á laugardag.Vísir/Halldór

„Það kemur því ekki á óvart að oft er hart tekið á slíkri tjáningu af ráðamönnum í alræðisríkjum, eins og fjölmargir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu bera vitni um. Þó ber að taka fram að skopmynd getur í algjörum undantekningartilvikum gengið of langt ef eina markmiðið með henni er auðmýkja eða niðurlægja þann sem í hlut á.“

Áhyggjuefni að Arnar skuli bregðast svona við

Líklega er það skilningur Arnars Þórs en honum yfirsést ef til vill hið tvíræða eðli skopmyndarinnar?

„Í mínum huga er umrædd skopmynd Halldórs augljóslega varin af tjáningafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Virt heildstætt og í samhengi beinist hún, svo ekki verður um villst, að öllum forsetaframbjóðendunum og er ætlað að varpa ljósi á hve illskeytt umræða um þá getur orðið þar sem skoðanir þeirra og persónur eru oft mistúlkaðar eða ýktar.“

Róbert er að endingu spurður hvort það sé sérstakt áhyggjuefni að löglærður maður, fyrrverandi dómari, fari með þessum hætti í skopmyndateiknarann?

„Það er áhyggjuefni að löglærður forsetaframbjóðandi, sem segist annt um tjáningafrelsið, skuli bregðast svona við þessari umræðu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×