Manchester United tryggði sér titil í lokaleik tíma­bilsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bikarmeistarar Manchester United.
Bikarmeistarar Manchester United. @EmiratesFACup

Manchester United er FA-bikarmeistari eftir 2-1 sigur í úrslitaleik gegn nágrönnum sínum Manchester City. 

Líkt og búast mátti við var City mikið með boltann og ógnaði ágætlega á köflum. Það gætti þó aðeins á óöryggi í öftustu línu Manchester City. Nokkrar furðulegar sendingar milli manna og stundum eins og vantaði upp á samskipti.

Sá grunur reyndist réttur á 30. mínútu þegar misskilningur milli markmannsins Stefan Ortega og miðvarðarins Josko Gvardiol leiddi til marks.

Gvardiol steig Alejandro Garnacho út og skallaði til baka á markmanninn sem var staddur í skrítnu skógarhlaupi rétt fyrir utan vítateig. Boltinn sveif yfir Ortega og datt fyrir Garnacho sem lagði hann í galopið net.

Skömmu síðar sótti Garnacho með boltann upp hægri vænginn, fann Bruno Fernandes í miklu plássi á miðjunni, hann framlengdi á Kobbie Mainoo sem kláraði auðvelt færi og tvöfaldaði forystuna.

Áfram héldu City boltanum eins og þeir gera svo vel, en sköpuðu sér fá frábær færi. Erling Haaland fékk reyndar gullið tækifæri til að minnka muninn í upphafi seinni hálfleiks en boltinn skoppaði af slánni og út.

Jeremy Doku greip til sinna ráða þegar lítið var eftir af leiknum. Kom sér framhjá varnarmanni og þrumaði skoppandi bolta í nærhornið framhjá ráðalausum Andre Onana í markinu.

Þetta jók spennuna til muna og gaf City séns á að jafna leikinn í sjö mínútna uppbótartíma. Þeim tókst þó illa til og United-menn héldu vel út, lokatölur 2-1 og Manchester United er FA bikarmeistari.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira