Ocon varð liðinu til ama í Mónakó um síðustu helgi þegar hann kaus að fylgja ekki plani og reyndi að taka fram úr liðsfélaga sínum Pierre Gasly en klessti óvart aftan á hann.
Ocon tókst að koma bíl sínum í pittinn eftir áreksturinn en skemmdirnar reyndust of miklar til að halda áfram keppni.
Rewind to the first lap before the red flag ⏪
— Formula 1 (@F1) May 26, 2024
The Alpine drivers make contact and Ocon takes flight at Portier! Both drivers have made it back to the pit lane #F1 #MonacoGP pic.twitter.com/uDApxbVRnu
„Ég var í sjokki. Þetta var algjör óþarfi. Við erum með skýrt plan og leiðbeiningar fyrir kappaksturinn, sá sem er á eftir hjálpar þeim sem er á undan,“ sagði liðsfélagi hans við fjölmiðla eftir kappaksturinn í Mónakó.
Alpine tilkynnti svo rétt í þessu að samningur Ocon yrði ekki framlengdur að tímabilinu loknu. Þetta bindur enda á fimm ára veru hans með liðinu, hann varð fyrsti ökuþór liðsins til að vinna keppni þegar hann fagnaði sigri í Ungverjalandi árið 2021. Hann komst í tvö önnur skipti á verðlaunapall, síðast í Mónakó 2023 þegar hann endaði í þriðja sæti.
„Við áttum frábærar stundir saman, erfiðar stundir líka en ég er svo þakklátur öllum sem gerðu þennan tíma svo eftirminnilegan. Ég mun upplýsa um framhaldið bráðlega, en þangað til fer öll mín orka í að ná sem bestum árangri í keppnunum sem eftir eru á tímabilinu,“ sagði Ocon í yfirlýsingu Alpine.