Þegar hún átti fimm metra í mark byrjaði Laura García-Caro að fagna enda hélt hún að hún væri örugg með bronsverðlaun. Hún hafði meira að segja náð sér í spænskan fána sem hún setti um hálsinn.
En García-Caro fagnaði of snemma því Lyudmila Olyanovska frá Úkraínu hafði ekki gefist upp. Hún náði García-Caro og tók svo framúr henni við endamarkið. Þeirri spænsku krossbrá þegar hún sá Olyanovsku við hlið sér og áttaði sig á því draumurinn um að vinna brons væri úr sögunni.
Þetta ótrúlega atvik má sjá hér fyrir neðan.
Disaster! 😱
— European Athletics (@EuroAthletics) June 7, 2024
Rule number one: don't celebrate too early! 😬#Roma2024 #IgniteTheFire pic.twitter.com/neqiuXoEz3
„Ég var mjög þreytt á lokahringnum. Ég gerði mitt besta,“ sagði svekkt García-Caro eftir gönguna.
Olyanovska tileinkaði þjóð sinni bronsmedalíuna. „Þetta er mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig. Auðvitað var ég þreytt síðasta kílómeterinn og síðustu metrana en ég vildi svo mikið vinna þessa medalíu fyrir þjóð mína. Það er stríð í Úkraínu. Við æfum við mjög erfiðar aðstæður, þetta var erfiður undirbúningur en ég er mjög ánægð með að hafa komið með medalíu heim. Það hvatti mig mest áfram.“
Heimakonurnar Antonella Palmisano og Valentina Trapletti urðu í fyrstu tveimur sætunum í göngunni.