„Sonur minn er sjö mánaða. Hann var bara fimm mánaða þegar ég, nokkuð óvænt, kom inn á þing. Síðan þá hefur hann verið tíður gestur hér á göngum þingsins og í hliðarsölum. Ábyrgð okkar hér í þessum sal er mikil og hún verður áþreifanlegri þegar ég hugsa um ábyrgð mína, ábyrgð okkar til að búa vel um hnútana fyrir kynslóð sonar míns,“ sagði Eva Dögg.
Hún sagði frasann um að vika væri langur tími í pólitík réttan og að tíminn frá því hún kom á þing fyrir tveimur mánuðum, óvænt, hefði liðið hratt. Eva Dögg tók við sæti Katrínar Jakobsdóttur þegar hún sagði af sér þingsetu. Eva Dögg ræddi loftslagsmálin og mannréttindi í ræðu sinni.
Verði að verja innviði
„Loftslagsmálin hafa sett spor sín á síðustu tíu ár og það er nokkuð ljóst að næstu 10 ár verða afgerandi, enda tíminn til aðgerða af skornum skammti. Mikilvægi sterkrar og vel uppbyggðrar löggjafar og áætlana sem fylgja eftir settum loftslagsmarkmiðum er augljóst og það er ekki eftir neinu að bíða,“ sagði Eva og að það mætti ekki missa sjónar á markmiðunum.
Hún sagði stóru verkefnin að verja og styrkja innviðina og velferðarkerfið.
„Sonur minn tíðræddi er Íslendingur og Þjóðverji. Í hinu heimalandi hans er ógnvænleg hægrisveifla í gangi, eins og raunar víðar á Vesturlöndum. Öfgahægri flokkar sækja í sig veðrið, og vinstrið á víða undir högg að sækja. Líka hér á landi. Vinstri vængurinn er ekki brotinn, en hann er laskaður. Það er hlutverk okkar að standa vörð um vinstrið, og á sama tíma sporna gegn skautun. Það er erindi mitt og minna flokkssystkina á þessum vettvangi. Erindi sem ég tel mikilvægt til þess skapa þá framtíð sem sonur minn og hans kynslóð eiga skilið.“