Erla segir að unglingarnir hafi komið eitt föstudagskvöld fyrir um mánuði síðan, og byrjað um sexleytið að sparka í hurðina. Svo hafi þeir alltaf flúið vettvang yfir á bæjarlóðina við hliðina. „Þeir báru allt af sér þegar við töluðum við þá, en þeir komu alltaf aftur og aftur þetta kvöld,“ segir Erla. Hún hafi svo hringt á lögregluna sem kom og tók skýrslu.
Í fyrrakvöld hafi krakkarnir komið aftur, og þau sparkað svo fast að rúða í hurðinni brotnaði. „Í gærkvöldi komu svo tvær stelpur og þrusuðu í hurðina. Þetta er mjög óþægilegt, og þetta var sérstaklega óþægilegt þetta föstudagskvöld, og ekkert hægt að tala við þá með góðu eða neitt,“ segir Erla.
Erla vakti fyrst athygli á þessu á Feisbúkksíðunni íbúar í Grafarvogi.
Handteknir í Bandaríkjunum vegna athæfisins
Fyrir viku síðan var greint frá því á Vísi að tveir táningar hefðu verið handteknir í Flórída í Bandaríkjunum eftir svipað athæfi. Fox News fjallaði upphaflega um málið.
Unglingarnir í Flórída voru gripnir glóðvolgir á öryggismyndavél.
Til eru fleiri dæmi um krakka sem hafa verið handteknir vegna svipaðra atvika, en í Bandaríkjunum hefur nokkuð verið fjallað um þessa furðulegu tísku sem nú gengur yfir.