Víkingur náði fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar með 0-4 útisigri á Stjörnunni. Nikolaj Hansen og Karl Friðleifur Gunnarsson sáu til þess að Víkingar voru 0-2 yfir í hálfleik og í seinni hálfleik bætti varamaðurinn Helgi Guðjónsson svo tveimur mörkum við. Danijel Dejan Djuric átti frábæran leik í liði Víkings og lagði upp þrjú mörk.
Pálmi Rafn Pálmason stýrði KR í annað sinn þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Fylki vestur í bæ. Kristján Flóki Finnbogason kom KR-ingum yfir í tvígang en Þóroddur Víkingsson og Nikulás Val Gunnarsson jöfnuðu fyrir Fylkismenn sem eru enn á botni deildarinnar.
Þá vann Fram sinn fyrsta sigur síðan 5. maí þegar liðið lagði Vestra að velli á Ísafirði, 1-3. Magnús Þórðarson, Már Ægisson og Brynjar Gauti Guðjónsson skoruðu mörk Frammara en Andri Rúnar Bjarnason lagaði stöðuna fyrir Vestramenn.
Mörkin úr leikjum gærdagsins í Bestu deildinni má sjá hér fyrir ofan.