Fótbolti

Viking sterkir gegn Rosenborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson hefur leikið fjóra A-landsleiki.
Patrik Sigurður Gunnarsson hefur leikið fjóra A-landsleiki. getty/Jonathan Moscrop

Patrik Sigurður Gunnarsson stóð að venju milli stanganna hjá Viking sem sigraðir Rosenborg, 4-2, í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Viking er með 22 stig í 5. sæti deildarinnar en Rosenborg, sem hefur valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu, er í 10. sætinu með fjórtán stig.

Heimamenn náðu forystunni á 19. mínútu þegar Zlatko Tripic skoraði úr vítaspyrnu. Edvard Tagseth kom boltanum framhjá Patrik á 48. mínútu og jafnaði metin fyrir gestina.

Viking komst aftur yfir á 69. mínútu þegar Sondre Bjorshol skoraði og fjórum mínútum síðar gerði Tripic annað mark sitt og þriðja mark heimamanna. 

Peter Christiansen negldi svo síðasta naglann í kistu Rosenborg þegar hann kom Viking í 4-1 sex mínútum fyrir leikslok. Ole Saeter lagaði stöðuna fyrir Rosenborg með marki úr víti í uppbótartíma.

Patrik er á sínu fjórða tímabili hjá Viking. Hann hefur alls leikið 77 deildarleiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×