Innlent

Mikið eldinga­veður á suð­vestan­verðu landinu síð­degis

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Rauðu blettirnir sýna eldingarnar sem slógu niður í dag.
Rauðu blettirnir sýna eldingarnar sem slógu niður í dag. Veðurstofa Íslands

Þó nokkuð var um þrumur og eldingar á suðvestanverðu landinu milli klukkan fjögur og sjö í dag. Flestar eldingarnar slógu niður í norðanverðum Faxaflóa.

Þungbúið var á landinu í dag og væta í felstum landshlutum. Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir þrumur og eldingar hafa verið „hérna á Suðurlandi, yfir Hellisheiðina, svo aðallega fyrir Norðan höfuðborgarsvæðið semsagt inni á Faxaflóa og við Borgarfjörð.“

Hann segir að svona gerist yfirleitt nokkrum sinnum á hverju ári. Eldingaveður sé samt ekki algengt hér á landi, miðað við meginland Evrópu, eða Norður-Ameríku.

Á morgun verði áfram svona skúraleiðingar, en sennilega ekki eins öflugt og þetta var í dag.

„Ég á ekki von á því að þetta verði alveg eins óstöðugt. En það er ekkert óhugsandi, það er voðalega erfitt að spá fyrir um eldingar,“ segir Hrafn.


Tengdar fréttir

Eldingar með skúrum síðdegis

Þungbúið er á landinu í dag og væta í flestum landshlutum. Eftir hádegi birtir heldur til en þó eru líkur á skúrum seinnipartinn og jafnvel með eldingum um tíma suðvestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×