Írína Farion var úkraínskur þingmaður sem barðist ötullega fyrir úkraínskri tungu og stöðu hennar í úkraínsku samfélagi. Hún sat á þingi fyrir hönd þjóðernishyggjuflokkinn Svoboda. Hún lést sextíu ára að aldri.
Málsamfélagið í Úkraínu er um margt sérstakt þar sem stór hluti Úkraínumanna hafa rússnesku að móðurmáli eða bæði úkraínsku og rússnesku nokkurn veginn jöfnum höndum.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir að hann fylgist vel með leitinni og fordæmir árásina.
Írína var málvísindakona og hlaut sæti á þingi árið 2012. Hún hafði einnig setið í héraðsþingi Lvív. Hún vakti mikla athygli fyrir baráttu sína fyrir úkraínskri tungu og að úthúða embættismönnum sem notuðu rússnesku við að framkvæma embættisverk.
Árið 2018 þegar stríð hófst við rússneska aðskilnaðarsinna í Donbas-héraði lét hún til dæmis þau ummæli falla að það ætti að „kýla hvern einasta rússneskumælandi mann í kjálkann.“
Andriy Sadovyi borgarstjóri Lvív greindi frá því á Telegram að Farion hafi látist af sárum sínum á sjúkrahúsi í gærkvöldi. Árásarmaðurinn er sagður hafa skotið Farion klukkan hálf átta að staðartíma í gærkvöldi.
„Ég hef oft sagt að það sé enginn öruggur staður í Úkraínu lengur. En að vera svo ósvífinn að fremja svo kaldrifjað morð. Það þarf að finna morðingjann,“ sagði í færslu borgarstjórans.