Sport

Rúss­nesk þingkona gagn­rýnir lyfja­notkun Biles

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles er sigursælasta fimleikakona allra tíma.
Simone Biles er sigursælasta fimleikakona allra tíma. getty/Nikolas Liepins

Svetl­ana Zhurova frá Rússlandi réðist nokkuð harkalega á bandarísku fimleikastjörnuna Simone Biles í viðtali og ýjaði að því hún kæmist ekki í gegnum daginn án lyfja.

Zhurova vann til gullverðlauna í skautahlaupi á Vetrarólympíuleikunum í Tórínó fyrir átján árum. Hún situr í dag á rússneska þinginu.

Zhurova tjáði sig um Biles, sigursælustu fimleikakonu allra tíma, í nýlegu viðtali við RIA Novosti og gerði andleg veikindi hennar og lyf sem hún tekur vegna þeirra að umtalsefni sínu.

„Hún kemst ekki af án lyfja,“ sagði Zhurova en Biles tekur ritalín vegna athyglisbrests og ofvirkni.

Ritalín er á bannlista Wada, alþjóða lyfjaeftirlitsins, en Biles fær undanþágu til að nota lyfið. Zhurova finnst það skjóta skökku við.

„Ef annað íþróttafólk notar örlítið ritalín er það umsvifalaust dæmt úr leik. Það er ekki sanngjarnt að hún fái að nota lyfið en annað íþróttafólk ekki,“ sagði sú rússneska.

„Kannski eru læknarnir í blekkingarleik þegar hún kemst ekki í gegnum daginn án lyfja. Ég spyr Wada hvort svona greiningar séu leyfðar.“

Biles er á leið á sína þriðju Ólympíuleika. Hún sló í gegn á leikunum í Ríó 2016 en þurfti að draga sig úr keppni í Tókýó fyrir þremur árum vegna andlegra veikinda. Biles hefur unnið til sjö verðlauna á Ólympíuleikum, þar af fernra gullverðlauna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×