Tilkynning um málið barst lögreglunni laust eftir hádegi í dag.
„Þar sem ljóst var í upphafi að erfitt gæti verið að komast til þessara aðila voru björgunarsveitir frá Húsavík, Kópaskeri og Mývatnssveit ræstar út og síðar var Akureyri bætt í þann hóp. Þá var óskað eftir aðstoð frá þyrlu LHG,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Sjúkraflutninga- og björgunarsveitamenn voru komnir um tveimur klukkustundum síðar og hlúðu að mönnunum. Þyrla Landhelgisgæslunnar hífði þann slasaða upp til sín af þeim stað sem hann lá, í gróðrinum undir klettabeltinu.
Í ljós hafi komið að tveir hjólreiðamenn hefðu verið á leið sinni upp með Jökulsánni að vestanverðu þegar annar þeirra féll af hjóli sínu og fram af klettabrún. Hann hafi lent í gróðri og grjóti þar neðan við eftir talsvert fall. Maðurinn þurfti aðstoð en var með góðri meðvitund allan tímann.
Báðir hjólreiðamennirnir voru fluttir með þyrlunni til Akureyrar til frekari aðhlynningar.
Lögreglan þakkar öllum viðbragðsaðilum fyrir skjót og fagleg viðbrögð við mjög krefjandi aðstæður í verkefninu.