Þetta er annar úrslitaleikur þeirra á stuttum tíma því þeir mættust einnig í úrslitaleik Wimbledon mótsins á dögunum þar sem Alcaraz fagnaði sigri. Það var annað árið í röð sem hann vann Serbann í úrslitaleiknum á Wimbledon.
Alcaraz er 21 árs en Djokovic er sextán árum eldri því hann hélt upp á 37 ára afmælið sitt í maí. Djokovic er því á lokakafla ferilsins síns og hann hefur unnið allt nema Ólympíugullið.
Þetta eru hans fjórðu Ólympíuleikar en hann fékk brons á Ólympíuleikunum í Peking 2008 en hefur síðan tapað bronsleiknum á tveimur leikum, fyrst í London 2012 á móti Juan Martín del Potro frá Argentínu og svo á móti Spánverjanum Pablo Carreño Busta á síðustu leikum í Tókýó.
Það er ljóst að þetta verður sögulegur sigur. Novak Djokovic er sá elsti til spila um gullverðlaun í tennis karla og verður því jafnframt elsti Ólympíumeistari sögunnar vinni hann leikinn.
Alcaraz verður aftur á móti sá yngsti til að vinna Ólympíuverðlaun karla í tennis vinni hann úrslitaleikinn. Það yrði um leið þriðji risasigur hans á árinu því Spánverjinn hefur þegar unnið Opna franska meistaramótið og Wimbledon mótið.
Úrslitaleikurinn hefst klukkan tólf að hádegi að íslenskum tíma.