Frá þessu greinir miðillinn Deadline. Þar segir að myndin muni einfaldlega bera heitið Reykjavik og fjalla um fundinn mikilvæga sem átti sér stað eina spennuþrungna helgi 11. og 12. október árið 1986 þegar kalda stríðið stóð sem hæst.
Jeff Daniels mun fara með hlutverk Reagan en Jared Harris leikur Gorbatsjov. Þá mun J.K. Simmons fara með hlutverk utanríkisráðherrans George Shultz.
Michael Russel Gunn leikstýrir myndinni eftir eigin handriti. Tökur fara fram hér á landi í október, að miklu leyti í Höfða.
Í umfjöllun Deadline segir að Gunn hafi staðið að miklum rannsóknum við skrif myndarinnar. Hugmyndin hafi kviknað þegar hann hafi farið á fund Shultz í Stanford í Bandaríkjunum, þar sem hann hafi fengið afhent leynileg gögn af fundinum. Gögn sem nú hafa verið opinberuð. Í ljósi stríðsátaka í Evrópu sé ætlunin að varpa ljósi á það hvernig megi ná sáttum á tímum stríðsátaka.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áform eru uppi um gerð kvikmyndar eða sjónvarpsþáttaraðar um Höfðafundinn. Fyrir um áratug hófust þreifingar á þáttaröð um fundinn þar sem Michael Douglas átti að fara með hlutverk Reagan og Christoph Waltz með hlutverk Gorbatsjov.