Ungur karlmaður var handtekinn ásamt öðrum aðfaranótt laugardags en þeim síðar sleppt úr haldi. Sakborningurinn sætir nú farbanni.
Árásin átti sér stað á miðbæjarsvæðinu á Akureyri, þar sem hátíðin Ein með öllu fór fram um verslunarmannahelgina, á þriðja tímanum á aðfaranótt laugardags. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var þetta eina meiriháttar verkefnið sem kom inn á borð hennar yfir helgina sem hafi að öðru leyti gengið vel.
Vildi lítið tjá sig um málið
Að lokinni rannsókn fer málið áfram til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um það hvort sakborningur verði ákærður. Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, staðfesti að fórnarlambið sé laust af sjúkrahúsi en vildi ekki tjá sig um aðdragandann að árásinni eða hvort sakborningur hafi áður komið við sögu lögreglu.
Þá vildi hann ekki upplýsa hvort talið væri að hinn grunaði hafi þekkt fórnarlambið fyrir árásina. Erfitt væri að greina frá málsatvikum á meðan rannsókn stæði enn yfir.