Tilkynning um að tveir ferðamenn væru fastir í helli nærri Kerlingarfjöllum, og annar þeirra slasaður, barst Neyðarlínunni á ellefta tímanum á mánudagskvöld. Um 200 manns komu að leitinni sem fór í hönd, og stóð yfir þangað til á sjöunda tímanum í gærkvöldi, þegar lögregla taldi sterkar vísbendingar um að útkallið hafi verið gabb.
Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir málið ekki einsdæmi, þó fá dæmi séu um gabbútköll eins og þetta.
„Þá er bara eftir ein, og hún fer ekki langt út á sjó. Hún getur líka klárast og við lent í þyrluleysi. Það er nú aðalhættan,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Tilkynningin á mánudag barst í gegnum netspjall Neyðarlínunnar, sem meðal annars er ætlað ætlað heyrnarlausum, fórnarlömbum heimilisofbeldis og öðrum sem ekki hafa þann kost að hringja beint í 112.
„Það er erfitt ef við þurfum eitthvað að fara að herða í kringum það til þess að koma í veg fyrir svona hluti.“
Erfiðara geti reynst að rekja slíkar tilkynningar en þær sem berist í gegnum síma, en lögreglan hafi þó sínar leiðir í því. Jón segir grafalvarlegt að menn gabbi viðbragðsaðila með þessum hætti.
„Það er alveg ljóst að þessir 200 manns, þegar þau eru bundin í þessu verkefni, eru ekki að aðstoða aðra á meðan. Það er nú kannski alvarlegasti hluturinn í þessu.“

Gabbarar ættu að hugsa sig tvisvar um
Forstjóri Landhelgisgæslunnar tekur í sama streng, en þyrlusveit gæslunnar var kölluð út. Vegna reglna um hvíldartíma getur önnur tveggja vakta því brunnið upp við að sinna útkalli sem þessu.
„Þá er bara eftir ein, og hún fer ekki langt út á sjó. Hún getur líka klárast og við lent í þyrluleysi. Það er nú aðalhættan,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Landhelgisgæslan reikni ekki út kostnað við hvert útkall, en Georg ítrekar hættuna við að festa mannskap og tæki í falsboðum með þessum hætti.
„Þetta er nú svo yfirgengilegt að maður veit ekki alveg hvað maður á að segja, en ég held að menn ættu að hugsa sig um áður en þeir teppa stóran hluta neyðarviðbragðs landsins,“ og bendir á að í útkalli sem þessu, þar sem talið er að mannslíf séu í húfi, setji viðbragðsaðilar sjálfa sig í meiri hættu en ella til að bjarga þeim sem um ræðir.