Orkustofnun gaf Landsvirkjun í gær virkjunarleyfi fyrir vindorkuver við Búrfell. Þar stendur til að reisa um þrjátíu vindmyllur sem ná allt að hundrað og fimmtíu metra upp í loft. Þetta þykja nokkur tíðindi því þetta er í fyrsta sinn sem leyfi er gefið út til vindorkuvirkjunar hér á landi. Björg Eva Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri Landverndar.
„Landvernd telur alls ekki tímabært að gefa út virkjanaleyfi fyrir vindorku á Íslandi því stefna um vinnslu vindorku og framtíð hennar er bara ennþá óunnin og það er bara alls ekki gott. Þetta fyrsta leyfi Orkustofnunar til vindorkustofnunar er mikið áhyggjuefni en um leið mjög mikil hvatning til náttúruverndarsinna og til alls almennings um að þrýsta á stjórnvöld um að móta nú einu sinni stefnu í tæka tíð en ekki eftir að framkvæmdir sem nú eru á teikniborðinu á tugum svæða úti um Ísland verða komnar of langt til þess að hægt sé að hafa áhrif á þær.“
Björg Eva segir átak í vitundarvakningu hafið.
„Við sjáum tilefni til að fara núna í mjög öfluga kynningarherferð á landi sem er undir á teikniborði vindorkuframleiðenda og við vorum nú með stóreflisgöngu um Grjótháls í Borgarfirði um síðustu helgi og tóku þar þátt margir tugir manna og kvenna, það voru 70 manns í göngunni og það markar upphafið að þeirri kynningu á landsvæðum, heiðum í háska, sem við köllum, þannig að fólk þarf núna bara að fá almennilegar upplýsingar um þetta allt saman og það þarf að móta stefnu í samvinnu við almenning um hvernig við ætlum að hafa þessa hluti og hvort við ætlum að hafa þá.“
Fjölmargir hafa áhuga á að ráðast í uppbyggingu slíkra vindmyllugarða.
„Ég held það sé í kringum fimmtíu hugmyndir á einhverju skipulagsplani eða hugmyndastigi og sumar komnar mun lengra en það, maður heyrir af því að það sé búið að flytja inn einhver tilraunamöstur fyrir framkvæmdum og að þetta sé bara að læðast að úr öllum áttum og það er bara verulegt áhyggjuefni.“