Við vorum svo heppnir að sjálfur Randy var heima að spjalla við gesti þegar við Egill Aðalsteinsson kvikmyndatökumaður mættum á staðinn. Randy fagnaði Íslendingunum og sagðist raunar hafa fengið hóp frá Íslandi í heimsókn nokkrum dögum áður.
Húsið var í niðurníðslu þegar hann keypti það fyrir lítið fé árið 1995. Hann hóf að mála það í skrautlegum litum en sankaði einnig að sér allskyns dóti og drasli sem hann sömuleiðis málaði skærum litum og kom fyrir á lóðinni, sem núna er orðinn sannkallaður ævintýraheimur. Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.
Pittsburgh í Pennsylvaníu var heimsótt í þættinum Ísland í dag. Tilefnið er að núna býðst beint áætlunarflug þangað frá Íslandi en borgin varð í sumar einn af áfangastöðum Icelandair, sá tólfti hjá félaginu í Norður-Ameríku.
Pittsburgh hefur raunar fóstrað fjölda líflegra einstaklinga og listamanna sem margir hafa hlotið heimsfrægð. Nefna má leikarann Gene Kelly, sem söng í rigningunni, Jeff Goldblum úr Jurassic Park, Michael Keaton, sem lék Batman, Charles Grodin, pabbann úr Beethoven, goðsögnina James Stewart, rithöfundinn Gertrude Stein og popplistamanninn Andy Warhol.

Ferðalag okkar hófst á Keflavíkurflugvelli. Þeir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri hjá Icelandair, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, opnuðu flugleiðina formlega með því að klippa á borða í Leifsstöð áður en farþegum var boðið að ganga um borð. Flugvallarslökkviliðið myndaði heiðursboga með vatnsbunum þegar ekið var frá flugstöðinni.
Boeing 737 MAX-þotu Icelandair í þessu fyrsta flugi stýrðu tvær konur, þær Sigrún Bender flugstjóri og Kristín Edda Egilsdóttir aðstoðarflugmaður. Í flugstjórnarklefanum fræddu þær okkur um hvernig flug á nýjan áfangastað kallaði á meiri undirbúning flugferðar. Þá sögðust þær aldrei fá nóg af því magnaða útsýni sem birtist þegar flogið er yfir Grænland, með sínum fjörðum, fjallgörðum, skriðjöklum og hafís.

Andstæðurnar gátu vart verið meiri þegar grænt og hlýlegt landslag Pennsylvaníu birtist farþegum í aðfluginu eftir nærri sex stunda flug, - í mótsögn við hið hvíta og kuldalega Grænland.
Árið 2017 varð Wow Air fyrst íslenskra flugfélaga til að bjóða upp á beint flug til Pittsburgh. Fimm árum eftir að þeirri sögu lauk hefur Icelandair tekið upp þráðinn og býður upp á fjögur flug í viku fyrst um sinn. Aðeins eitt annað flugfélag, British Airways, er með beint flug milli Pittsburg og Evrópu.
Fjölmiðlar staðarins sýndu komu Íslendinganna mikinn áhuga. Í hádegisverði með áhrifafólki úr viðskiptalífi Pittsburgh, með mögnuðu útsýni yfir borgina, fagnaði Christina Cassotis flugi Icelandair en hún er framkvæmdastjóri flugvalla sýslunnar. Christina sagði borgina þurfa fleiri flugtengingar út í heim, þar væru margir sem dýrkuðu Ísland og sagðist líka viss um að Íslendingar kynnu að meta Pittsburgh.

Pittsburgh er næst stærsta borg Pennsylvaníu, á eftir Fíladelfíu, með um 300 þúsund íbúa. Með nágrannabæjum teljast þó tvær og hálf milljón manns búa á borgarsvæðinu. Borgin dregur nafn sitt af virki sem stóð á ármótum þar sem núna er fagur gosbrunnur.
Pittsburgh er stundum kölluð stálborgin vegna þess lykilhlutverks sem hún gegndi í bandarískum stáliðnaði langt fram eftir síðustu öld. En svo tók að fjara undan þeim iðnaði og borgarbúar neyddust til að skapa sér ný tækifæri. Og þar sem áður stóðu stáliðjuver í röðum meðfram árbökkunum eru núna komnir skemmtilegir göngu- og hjólastígar.
En Pittsburgh er einnig nefnd borg brúanna og það ekki af ástæðulausu. Sagt er að 446 brýr séu yfir árnar á borgarsvæðinu.

Andrew Carnegie lék stórt hlutverk í vexti borgarinnar en hann hóf þar stálframleiðslu árið 1875 og varð einn ríkasti maður sögunnar. Síðar gaf hann megnið af auði sínum til velferðarmála og bera mörg söfn og stofnanir nafn hans.
Mörgum finnst gaman að ramba innan um skýjakljúfana og njóta um leið götulífsins. Gulf Tower var lengi hæsta byggingin og háskólabyggingin, Dómkirkja lærdómsins, sú næst hæsta. Í nýrri byggingum má sjá athyglisverðan arkitektúr eins og fjörutíu hæða glerbyggingu sem með húsunum í kring myndar einskonar glerkastalaþyrpingu.
Eitt líflegasta hverfið kallast The Strip, eða Ræman, og þó að það sé í göngufæri við miðborgina er rétt eins og við séum komin í smábæ enda húsin þar lágreist. Þar má finna útimarkaði, smáverslanir og sölubása, veitingastaði með lifandi tónlist, og ef fólk vill hvíla sig frá göturöltinu má setjast inn á bjórgarð og hlusta á rokkhljómsveit.

Árnar þrjár sem mætast í borginni urðu mikilvæg flutningaleið í upphafi iðnbyltingarinnar. Og enn má sjá flutningapramma sigla á ánum en einnig farþega- og skemmtibáta.
Ofan af hæðunum fæst frábært útsýni yfir miðborgina og háhýsin. Á tveimur stöðum ganga kláfferjur um snarbratta hlíðina sem skemmtilegt er að taka en þær eiga sér 150 ára sögu í borginni og voru smíðaðar til að auðvelda stálverkamönnum að komast til og frá vinnu.
Siglingaleiðin að borginni liggur alla leið frá Mexíkó flóa um Mississippi-fljótið. Kafbátur úr síðari heimsstyrjöld er núna hluti eins af fjórum söfnum borgarinnar sem kennd eru við Andrew Carnegie.
Á öðru safni má fræðast um risaeðlurnar og fylgjast með vísindamönnum rannsaka steingervinga. Hér má sjá steingerðar beinagrindur af stærstu risaeðlunum, og kannski eins gott að maður var ekki uppi á sama tíma og grameðlan.

Þar má kynnast byggingarlist fornþjóða og raunar hægt að gleyma sér klukkustundum saman við að ramba um sýningarsali. Og alls ekki sleppa steinasafninu. Þar taka gestir andköf yfir fegurð og fjölbreytni steinaríkisins, sjá má sýnishorn úr öllum heimsálfum, hér er gull, eins og það kemur fyrir í náttúrunni, gimsteinar og allskyns eðalsteinar og meira að segja silfurberg kennt við Ísland.
Í Pittsburgh er safn um popplistamanninn Andy Warhol sem fæddist og ólst upp í borginni. Sjálfur mótaðist hann af auglýsingageiranum og mörg verka hans tengjast vörumerkjum, eins og Campbells-súpudósirnar. Myndasyrpurnar af Marlyn Monroe eru einnig með þekktustu verka hans.

Borgarbúar eru sérstaklega montnir af einu sigursælasta liði ameríska fótboltans, Pittsburgh Steelers. Leikvangur þess er í hjarta borgarinnar og tekur 70 þúsund áhorfendur. Skammt frá er völlur hafnaboltaliðsins þeirra, Píratanna, sem rúmar 40 þúsund áhorfendur.
Í einum besta stað borgarinnar er einnig völlur fyrir þá tegund fótbolta sem Evrópubúar þekkja betur. Sá völlur tekur reyndar bara fimm þúsund manns en ráðmenn knattspyrnuliðsins ætla að stækka hann svo hann rúmi fimmtán þúsund áhorfendur, þeir halda að vinsældir evrópska boltans séu að snaraukast.

„Mér finnst þetta bara alveg geggjuð borg. Ég verð að segja það alveg eins og það er,“ sagði Tómas Ingason hjá Icelandair eftir þriggja daga skoðunarferð.
„Þetta er bara yndisleg borg. Það er hægt að labba út um allt hérna. Hér er mikil menning, miklar íþróttir. Mikil saga í borginni. Ég var búinn að heyra mikið af borginni en ég verð að segja að mér finnst þetta miklu betra en ég þorði að vona,“ sagði Tómas.