Frá þessu er greint í tilkynningu lögreglu, en þar segir að þó ekki liggi fyrir hvar neyðarkallið á uppruna sinn sé horft til neyðarskýlis í Hornvík. Ekki liggur heldur fyrir hvers eðlis kallið er, þar sem ekki hefur náðst aftur í þann sem kallaði.
„Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð og óskað var eftir aðstoð varðstkipsins Þórs, sem statt var við Snæfjallsnes. Vonir standa til þess að varðskipið verði komið í Hornvík um kl.21:00 í kvöld.
Mikið hvassviðri hefur verið á Vestfjörðum og mikill sjógangur. Skútur sem hafa legið við legufæri á Pollinum á Ísafirði hafa slitnað frá legufærum og þakplötur og fleira hefur fokið á norðanverðum Vestfjörðum, svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni, þar sem fólk á svæðinu er hvatt til þess að festa niður lausamuni, og bent á að samkvæmt veðurspá fari að lægja með kvöldinu.
Að neðan má sjá myndefni sem Elías Svavar Kristinsson tók á Hólmavík.