Þegar fyrstu átta mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra kemur í ljós að tollurinn hefur lagt hald á fleiri skotvopn í ár. Á yfirstandandi ári lagði tollurinn hald á tólf skammbyssur og sex riffla. Skotvopnin sem tollurinn haldlagði á sama tímabili í fyrra voru tvö talsins. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2023 lagði tollurinn hald á mun fleiri hnífa en í ár eða alls 89 en í ár voru þeir þrettán talsins. Haldlagðar kylfur voru fimm í fyrra en ein í ár.

Fréttastofa fékk í dag að heimsækja tollinn til að sjá hvers konar vopn finnast við landamærin. Öll voru óhugnanleg og sum hreinlega stórfurðuleg og Páll Svansson aðstoðaryfirtollvörður, sem býr að rúmlega tuttugu ára reynslu í starfi vissi ekki heitin á þeim öllum, til dæmis einu vopninu sem líktist stærðarinnar tvöfaldri kló.
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að hluti af þeim vopnum sem finnast við landamærin hafi tilheyrt börnum sem kaupi þau í sólarlandaferðum. Undanfarnar vikur hefur um fátt annað verið rætt en aukinn vopnaburð ungmenna. Páll var spurður hvort foreldrar hreinlega leyfðu börnum sínum að koma með vopnin til landsins en þá sagði hann að það þyrfti alls ekki að vera að foreldrarnir væru meðvitaðir um að börn væru með vopn í fórum sínum.
Þá segir hann að sumir bæru fyrir sig að um skrautmuni væri að ræða en vopnalögin á Íslandi væru skýr þótt þau væru mögulega frjálslegri í einhverjum löndum.
Páll sýndi okkur tvær loftbyssur sem litu alveg eins út og skammbyssur en hann bendir á að óttinn og hræðslan sem fólk upplifi þegar byssunum sé beint að því sé raunverulegur þrátt fyrir að byssan sé ekki alvöru.