Hefð er fyrir því að fyrsta ríkisheimsókn nýs forseta í embætti sé til Danmerkur. Þetta er jafnframt fyrsta ríkisheimsóknin eftir krýningu Friðriks X og forseti Íslands því fyrsti þjóðhöfðinginn sem dönsku konungshjónin taka á móti sem gestgjafar.
„Markmið heimsóknarinnar er að styrkja söguleg tengsl Íslands og Danmerkur og efla hið nána samband ríkjanna,“ segir á vef forseta Íslands.
Í fylgd forsetahjóna verður viðskiptasendinefnd sem eiga mun fundi með fulltrúum dansks viðskiptalífs á sviði sjálfbærni, nýsköpunar og grænna lausna. Nánar verður greint frá dagskrá heimsóknarinnar þegar nær dregur.