Björn Daníel fór meiddur af velli eftir aðeins 25 mínútna leik í 3-3 jafnteflinu við Fram á sunnudaginn. Ekki þarf að fjölyrða um hve mikið áfall það yrði fyrir FH í Evrópubaráttunni ef meiðslin reyndust alvarleg.
„Ég veit þannig séð ekkert hvað gerðist. Bremsaði bara og fann eitthvað sem síðan hélt mér frá því að geta snúið, stoppað og tekið stefnubreytingar. Ætli þetta sé ekki bara hrörnun vöðvanna sökum aldurs, myndi telja það vera aðalástæðuna,“ segir Björn sem er 34 ára og ekki húmorslaus.
Úrslitakeppnin hefst eftir tæpa viku og gerir Björn ráð fyrir því að geta spilað næsta leik, þó að það sé ekki öruggt.
„Þetta lítur allt í lagi út. Lítur út fyrir að vera einhvers konar vöðvameiðsli, ekkert alvarlegt. Átta dagar í næsta leik þannig að eins og staðan er núna þá ætti ég vonandi að vera klár þá,“ segir Björn.
Hörð barátta um Evrópusæti
Björn Daníel hefur verið frábær með FH í sumar og er markahæsti leikmaður liðsins með átta deildarmörk, eftir að hafa samtals skorað tíu mörk á fimm tímabilum í efstu deild frá því að hann sneri heim úr atvinnumennsku.
Eftir jafnteflið gegn Fram eru FH-ingar í 6. sæti með 33 stig nú þegar fimm umferða úrslitakeppnin er eftir, þar sem liðið spilar við liðin fimm fyrir ofan sig. FH er aðeins stigi á eftir ÍA og Stjörnunni en liðið í 4. sæti fær Evrópusæti ef Víkingur vinnur KA í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Vinni KA þann leik þyrfti FH einnig að komast upp fyrir Val, sem er með 38 stig í 3. sæti, til að ná Evrópusæti.