Handbolti

„Stefnum á að vera í þessum efri hluta“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Karen Tinna lætur vaða að marki en hún skoraði 11 mörk í kvöld.
Karen Tinna lætur vaða að marki en hún skoraði 11 mörk í kvöld. Vísir/Diego

ÍR tóku á móti ÍBV í 3. umferð Olís deild kvenna í kvöld þar sem hart var barist og leikar enduðu jafnir 22-22. Karen Tinna Demian gerði sér lítið fyrir og skoraði helming marka ÍR-liðsins í kvöld.

„.Bara fínt að klára fá stigið. Hefðum klárlega viljað fá tvö stig úr þessum leik. Fannst við alveg eiga það skilið. Erum pínu óheppnar þarna á kafla og missum þetta svolítið niður þegar við erum með ágætis forskot. Gott að fá stig, brjóta ísinn en hefðum samt viljað fá tvö,“ sagði Karen Tinna eftir leik.

Það mátti sjá á liðsmönnum ÍR að svekkelsið var mikið að hafa ekki náð að landa sigri í kvöld. Þær horfðu á þetta sem tapað stig frekar en unnið.

„.Alveg klárlega. Við ætluðum að svara fyrir síðasta leik og mér fannst við gera það alveg ágætlega með því að keyra aðeins upp hraðan meira en í síðasta leik en hefðum klárlega átt að taka tvö stig úr þessu. Það eru bara væntingarnar og kröfurnar sem við setjum á okkur sjálfar.“

Karen Tinna á ferðinni í kvöld.Vísir/Diego

ÍR liðið er komið á blað í Olís deildinni og er það virkilega góð tilfinning.

„Það er bara mjög góð tilfinning. Það er bara að sýna að við séum að stefna í rétta átt og það er bara upp á við núna héðan í frá. Það er búið að brjóta ísinn og það er bara gott að fá stig úr þessum leik.“

ÍR átti flotta kafla í upphafi beggja hálfleika en síðan dró aðeins af þeim þegar líða tók á.

„Ég held að það séu bara svona lítil atriði. Fáum einhverjar tvær mínútur og dettum þá aðeins niður. Það hægist á okkur og þær fara að klippa út annan kantinn hjá okkur og það tekur smá af okkur bara tempóið og hraðan í spilinu okkar. Tekur okkur aðeins útaf laginu og það er klárlega bara eitthvað sem við þurfum að fara skoða betur.“

Karen Tinna skoraði, skoraði og skoraði í kvöld.Vísir/Diego

Liðin fara núna í smá landsliðs pásu og ÍR eru bjartsýnar á framhaldið.

„Eigum Selfoss beint í fyrsta leik eftir landsliðs pásu. Það verður bara hörku leikur sem að við ætlum klárlega að setja kröfu á að við tökum. Við stefnum á að vera í þessum efri hluta og við ætlum að gera þær kröfur á okkur að standast undir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×