Karlmaður á fimmtugsaldri sem lést þegar hann féll af fjölbýlishúsi í byggingu í Árborg á þriðjudag var sá þriðji sem lét lífið við mannvirkjagerð á þessu ári. Aðeins nokkrar vikur eru frá því að karlmaður lést á byggingarstað í Urriðaholti í Garðabæ. Þriðja banalysið varð á byggingarsvæði á Akranesi í júní. Þá lést karlmaður sextugsaldri á gjörgæsludeild um hálfum mánuði eftir slysið.
Banaslysin hafa ekki verið fleiri á einu árin undanfarin sex ár, að því er kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.
Tæplega tólf vinnuslys urðu fyrir hverja þúsund starfandi við mannvirkjagerð á Íslandi í fyrra samkvæmt tölum Samtaka iðnaðarins og hefur hlutfallið farið hækkandi á undanförnum árum. Slysin eru töluvert tíðari en í Noregi. Þau voru um sex á hverja þúsund starfandi í Noregi á árunum 2020 til 2022. Á sama tíma voru þau frá 8,2 til 10,7 á Íslandi.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, sagði RÚV ekki allir þeir starfsmenn sem hafa komið til landsins til þess að starfa í byggingariðnaðin á undanförnum árum hafi fullnægjandi reynslu. Koma þyrfti íslenskum kröfum um vinnuöryggi betur á framfæri og miðla þeim á mismunandi tungumálum.
Að minnsta kosti einn þeirra sem hafa látist í vinnuslysum á árinu var erlendur ríkisborgari.
Til standi að koma á fót öryggisskóla mannvirkjagerðar sem eigi að bæta öryggismenningu í byggingariðnaði. Vonir standi til að hann taki til starfa á næsta ári.