Innlent

Tveggja bíla á­rekstur á Suður­lands­vegi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Áreksturinn átti sér stað við Ölvisholt.
Áreksturinn átti sér stað við Ölvisholt. Vísir/Egill

Tveggja bíla árekstur varð á Suðurlandsvegi við Ölvisholt í dag. Farþegar voru fluttir til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun.

Lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu í færslu á Facebook. Þar kemur fram að fjögur önnur umferðarslys hafi verið skráð í umdæminu það sem af er helgi en að enginn hafi slasast í þeim.

Tíu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina og ók sá sem hraðast ók á 139 km/klst á Suðurlandsvegi á Hellisheiði. Tveir voru þá kærðir fyrir að keyra án tilskilinna réttinda og einn fyrir að hafa haft laust barn í bíl sínum.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum. Annar þeirra fyrir að aka smáfarartæki undir áhrifum vímuefna.

Skilgreining smáfarartækis er lítið ökutæki sem er vélknúið og án sætis, telst hvorki létt bifhjól né reiðhjól og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klukkustund upp í 25. Með þessu er yfirleitt átt við rafhlaupahjól.

Þrjú þjófnaðarmál komu upp og eru þau í rannsókn að því er segir í færslu lögreglunnar á Suðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×