Greint er frá stöðu Viðars Ara á vefsíðunni Fótbolti.net í morgun þar sem segir að Viðar liggi nú inn á sjúkrahúsi í Osló þar sem að hann bíður eftir aðgerð.
Atvikið átti sér stað í leik Ham Kam gegn Lilleström á laugardaginn síðastliðinn þar sem að Viðar fór meiddur af velli á 25.mínútu eftir að hafa áður lagt upp fyrsta mark Ham Kam í 5-0 sigri.
Í frétt Fótbolta.net segir að Viðar hafi rotast við höggið, komið sé í ljós að hann sé með fjórbrotinn kjálka og í ofanálag missti hann tönn.
Viðar hafði komið við sögu í 23 leikjum á tímabilinu hjá Ham Kam, skorað þrjú mörk og gefið tvær stoðsendingar en hann gekk til liðs við félagið í ágúst á síðasta ári frá FH.
Ham Kam er sem stendur í áttunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar.