Landsbankinn hækkaði breytilega vexti verðtryggðra íbúðalána um fjórðung úr prósenti í dag. Eftir vaxtabreytinguna verða breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum bankans 4 prósent á grunnlánum og 5 prósent á viðbótarlánum. Þá hækka vextir á nýjum verðtryggðum íbúðalánum til fimm ára um 0,50 prósentustig. Arion banki og Íslandsbanki hækkuðu sína vexti um 0,4 til 0,5 prósentustig í síðustu viku.
4,64% Arion hækkaði um 0,60 prósentustig
4,7% Íslandsbanki hækkaði um 0,50 prósentustig
4% Landsbankinn hækkaði um 0,25 prósentustig
Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum til þriggja og fimm ára lækka um 0,20 prósentustig hjá Landsbanka.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segir fjármagnskostnað stjórna breytingunni.
„Þetta er allt tengt fjármagnskostnaði bankans. Þannig hefur slíkur kostnaður kringum verðtryggð lán aukist en dregist saman kringum óverðtryggð lán,“ segir Lilja.
Aðeins fyrstu kaupendur fá jafngreiðslulán
Nú býður bankinn aðeins fyrstu kaupendum upp á verðtryggð íbúðalán með jöfnum greiðslum. Kostir slíkra lána samkvæmt upplýsingum fjármálastofnanna er að greiðslubyrðin helst stöðug yfir lánstímann ef vextir eru fastir eða sveiflast lítið en hins vegar greiðist höfuðstóllinn hægar niður í samanburði við lán með jöfnum afborgunum. Lántakandinn greiðir hins vegar meira fyrir lánið í heild sinni en væri hann með jafnar afborganir allan tímann.
„Fyrstu kaupendum býðst enn sá kostur að vera með sem minnsta greiðslubyrði. Það hjálpar þeim á erfiðum fasteignamarkaði“ segir Lilja.
Aðspurð um hvort þetta séu ekki séu dýrustu lánin svara Lilja:
„Þetta aðstoðar fólk á ákveðnum stað. En auðvitað viljum við að sem flestir komist út úr þessum lánum. Það má líka líta til þess að við erum að lækka vexti á óverðtryggðum lánum til þriggja og fimm ára og vonumst til þess að sem flestir fari svo í óverðtryggð íbúðalán.“
Ekki svigrúm þrátt fyrir hagnað
Landsbankinn hagnaðist um 16 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs sem er um sex milljörðum meira en bæði Íslandsbanki og Arion á sama tíma. Lilja segir að þrátt fyrir hagnaðinn hafi ekki verið svigrúm til að halda aftur að vaxtahækkunum á verðtryggðum lánum.
„Hagnaður okkar fyrstu sex mánuði ársins er einfaldlega í takt við það sem bankinn á að vera að skila. Þó þetta séu stórar tölur þá skiptir máli að bankinn sé rekinn með góðri afkomu. Hagnaðurinn er ekki óhóflegur í neinum samanburði við stærð bankans. En við erum alltaf að skoða hvernig við getum komið sem best á móts við viðskiptavini okkar. Við erum að gera frekar hóflegar breytingar á útlánakjörum til að horfa til þess að vonandi muni fjármagnskjör lækka fljótlega,“ segir Lilja.