Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að kynna endurnýjaða landamærastefnu á næstu vikum. Þar verði kynntar ýmsar leiðir til að bæta eftirlitið á landamærunum. Úlvar Lúðvíksson lögreglustjóri greindi frá því í fréttum okkar á föstudag að stefnt væri að því að taka andlitsgreiningarkerfi á landamærunum.

„Ábyrgð á landamærunum er á höndum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hann hefur viðrað þá skoðun sína í fjölmiðlum að fjárfesta í þessari andlitsgreiningartækni. Við erum vitaskuld að skoða það," segir Guðrún.
Margar aðrar aðgerðir væru í skoðun til að tryggja öryggi á landamærunum. Þá væri það skylda Íslands að taka upp svo kallað Entry/Exit eftirlit sem öll Schengen ríkin ætli sameiginlega að taka upp í nóvember.
„Það mun þá tryggja betri skráningu á þeim sem eru innan svæðisins og þeim sem yfirgefa svæðið heldur en nú er. Það er mjög mikilvægt," segir dómsmálaráðherra.
Þeir sem hafa ferðast til Bandaríkjanna og Kanada kannast við að þar er tekin af þeim mynd og einnig fingraför við landamærin. Guðrún segir að verið væri að huga að sams konar búnaði hér á landi sem og umsókn um ferðaheimild í líkinga við bandaríska ESTA kerfið.
„Við munum sömuleiðis taka upp þessa ferðaheimild fyrir þá sem koma frá þriðja ríki inn á Schengen svæðið. Þetta er allt í vinnslu," segir Guðrún. Stefnt sé að innleiðingu skráningarkerfisins í nóvember en það væri háð því að öll aðildarríki Schengen verði þá tilbúin til að innleiða kerfið á sama tíma.
„Við erum að leggja í þetta mikla fjarmuni og mannafla til að klára þetta verkefni hér. Þannig að það mun ekki stranda á Íslandi þegar hefja á innleiðingu á þessu kerfi," segir Guðrún Hafsteinsdóttir.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Guðrúnu í heild sinni.