Fótbolti

Stillti upp far­tölvu til að mót­mæla

Sindri Sverrisson skrifar
Jose Mourinho gat leyft sér að brosa eftir leikinn í dag, sem Fenerbahce vann.
Jose Mourinho gat leyft sér að brosa eftir leikinn í dag, sem Fenerbahce vann. Getty/Orhan Cicek

Portúgalski knattspyrnustjórinn Jose Mourinho beitti óhefðbundinni aðferð til að sanna mál sitt þegar hann mótmælti dómi í tyrknesku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir litríkan feril og fjölda titla í Portúgal, Englandi, Spáni og Ítalíu er Mourinho nú stjóri Fenerbahce sem fagnaði 2-0 útisigri gegn Antalyaspor í dag.

Mourinho fékk gult spjald í leiknum þegar hann mótmælti rangstöðudómi á Bosníumanninn Edin Dzeko, sem virtist hafa skorað mark.

Mourinho tók fartölvu með mynd sem átti að sanna að Dzeko hefði verið réttstæður, og setti tölvuna fyrir framan eina af sjónvarpsvélunum á leiknum.

Þetta þótti dómaranum ekkert sniðugt og hann gaf Mourinho gula spjaldið. Það kom þó ekki að sök og mark frá Dusan Tadic, eftir sendingu frá Fred, auk sjálfsmarks heimamanna dugðu Fenerbahce til sigurs. Liðið er því í 2. sæti deildarinnar.

Mourinho hefur á skömmum tíma komist í fréttirnar fyrir fleiri misgjörðir í Tyrklandi, því hann var einnig sektaður fyrir að sleppa blaðamannafundi nýverið.

Næsti leikur Fenerbahce er við Twente í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×