Golf

Sigurður sótti silfur fyrstur Ís­lendinga til Makaó: „Rosa­lega stoltur“

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurður með silfurverðlaunin sem hann vann verðskuldað til á Golf Masters í Makaó.
Sigurður með silfurverðlaunin sem hann vann verðskuldað til á Golf Masters í Makaó. Vísir/Sigurjón

Sigurður Guð­munds­son, kylfingur úr Golf­klúbbi Sand­gerðis náði fram­úr­skarandi árangri á Golf Masters mótinu í Makaó undir lok síðasta mánaðar. Þetta var í fyrsta sinn sem Ís­lendingur tekur sæti á mótinu og Sigurður gerði sér lítið fyrir og vann til silfur­verð­launa.

Golf Masters í Makaó í Asíu er mót fyrir fatlaða með þroska­skerðingu og er Sigurður fyrsti Ís­lendingurinn til þess að taka sæti á mótinu. Þangað var honum boðið vegna góðs árangurs.

„Ég fékk boð. Eftir að hafa keppt á Special Olympics í Ber­lín í Þýska­landi í fyrra. Um að taka þátt á Makaó Golf Masters mótinu í ár. Mér gekk rosa­lega vel út í Ber­lín. Náði öðru sæti á því móti líka og það komu full­trúar frá Makaó Golf Masters á það mót og þar fylgdust þeir með kylfingum. Ég sýndi fram á ein­hverja hæfi­leika sem urðu til þess að ég fékk boð á mótið.“

Það fengu fimm­tán bestu kylfingarnir í heiminum boð á þetta mót. Ég var einn af þeim. Sá eini frá Ís­landi en alls voru sjö kylfingar þarna frá Evrópu. Ég er mjög þakk­látur fyrir að hafa fengið boð til þess að keppa þarna úti og einnig rosa­lega stoltur af því. að fá að vera fyrsti Ís­lendingurinn til að keppa þarna. Fá að upp­lifa þetta mót. Næst ætlum við að taka fleiri Ís­lendinga með okkur.“

Lagði á sig mikla vinnu

Við tók spennandi ævin­týri og um þrjá­tíu klukku­stunda langt ferða­lag frá Sand­gerði til Makaó eftir að Sigurður hafði fjár­magnað ferðina upp á eigin spýtur.

„Ég fór sjálfur í smá fjár­öflun. Sótti um nokkra styrki og vann mér inn pening fyrir ferðinni með því að þrífa bíla. Ég hef reynslu af því. Ég bónaði bíla í ein­hverja tvo mánuði og var full­bókaður í því.

Spilað við frábærar aðstæður í Makaó.Aðsend mynd

Og öll vinnan sem hann lagði á sig borgaði sig því Sigurður gerði sér lítið fyrir og vann til silfur­verð­launa á mótinu eftir að hafa ekki ætlað sér að sækja mót út fyrir land­steinana í ár.

„Ég var ekkert að hugsa um að kíkja út á eitt­hvað golf­mót. Mark­mið mín sneru að því að lækka for­gjöfina í sumar. En ég er mjög sáttur með það hvernig til tókst. Ég náði að halda fókus og varna því að ég myndi missa hausinn. Því ef maður missir hausinn þá fer allt í rugl. Ég upp­lifði það smá í Ber­lín þar sem að ég átti tvær slæmar holur. Þá hugsaði ég með sjálfum „okey þessar tvær holur eru frá. Nú núll­stilli ég mig og ætla að fókusera á næstu holur. Þá fór allt í réttan far­veg hjá mér.“

Sigurður horfir hér á eftir góðu höggi.Aðsend mynd

Vill meira

Úti í Makaó var Sigurður að spila í allt öðru­vísi að­stæðum en hann er vanur hér heima.

„Við fengum rosa­lega mikið af sól og hita úti. Við byrjuðum klukkan níu á morgnanna að spila og spiluðum níu holur í um þrjá­tíu stiga hita og miklum raka. Hitinn varð síðan bara meiri eftir því sem leið á daginn.“

Svo sannar­lega mikil lífs­reynsla fyrir Sigurð sem er fé­lagi í Golf­klúbbi Sand­gerðis. Auk þess að sinna golfinu starfar hann á leik­skóla og gat glatt börnin með silfur­medalíunni þegar að hann sneri aftur heim til Ís­lands.

„Þær voru rosa stoltar af mér stúlkurnar í vinnunni og krakkarnir. Ég hafði verið í fríi í rúma viku. Það var tekið vel á móti mér er ég sneri aftur. Með medalíuna og allt.“

Eitt er víst og það er að Sigurður hefur mjög mikla ást­ríðu fyrir golf­í­þróttinni.

„Ég hef verið í golfi síðan árið 2002 þökk sé afa mínum honum Frið­jóni. Hann tók mig og bróðir minn alltaf með sér á gol­fæfingar á sumrin. Síðan þá hef ég haldið mig við golfið. Þetta er í­þrótt sem snýr að bæði and­legu og líkam­legu hliðinni. Það er góð hreyfing í þessu. Mikið labb. Hugar­leik­fimi líka sem krefst því að maður haldi ein­beitingu og missi ekki hausinn. Ég vil ná að­eins lengra í í­þróttinni. Mark­miðið er að komast í meistara­flokkinn á meistara­mótinu og komast á fleiri golf­mót er­lendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×