Enski boltinn

Ratcliffe um Ten Hag: „Ekki mín á­kvörðun“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Er komið að leiðarlokum?
Er komið að leiðarlokum? Samsett/Getty

Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe, meirihlutaeigandi Manchester United, segir framtíð Erik ten Hag, þjálfara liðsins, ekki vera í sínum höndum. Hann vill ekki segja til um hvort hann styðji við bak Hollendingsins.

Ratcliffe tók við stjórnartaumunum hjá Manchester United í febrúar og í júlí síðastliðnum virkjaði félagið eins árs framlengingar ákvæði í samningi hollenska þjálfarans.

Mikil pressa hefur myndast á ten Hag eftir erfiða byrjun á leiktíðinni en Ratcliffe fór varlega í sakirnar í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC. Félagið þurfi að „meta stöðuna og taka skynsamlegar ákvarðarnir.“

Aðspurður um hvort hann hafi trú á ten Hag sagði Ratcliffe: „Ég vil ekki svara þeirri spurningu“.

Ratcliffe var þá spurður út í framtíð ten Hag í starfi og hann sagði þær ákvarðanir liggja hjá stjórnendum fótboltamála; framkvæmdastjóranum Omar Berrada og íþróttastjóranum Dan Ashworth.

„Mér líkar vel við Erik. Mér þykir hann mjög góður stjóri en það er ekki mín ákvörðun,“ segir Ratcliffe.

„Stjórnendateymið sem rekur Manchester United þarf að ákveða hvernig er best að stýra því út frá mörgum mismunandi þáttum. En það teymi hefur aðeins verið saman síðar í sumar. Þeir voru ekki til staðar í vor. Omar og Dan Ashworth komu bara hingað í júlí,“ segir Ratcliffe og bætir við:

„Það þarf því að meta stöðuna og taka skynsamlegar ákvarðanir.“

Ljóst sé að Manchester United eigi enn langt í land.

„Markmið okkar eru skýr - við viljum koma Manchester United þangað sem félagið á heima, og það er ekki enn komið þangað. Það er augljóst,“ segir Ratcliffe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×