Erlent

Stóð af sér van­trausts­til­lögu

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Barnier var skipaður forsætisráðherra Frakklands í sumar.
Michel Barnier var skipaður forsætisráðherra Frakklands í sumar. AP

Vantrauststillaga franskra þingmanna á hendur Michel Barnier, forsætisráðherra Frakklands, var felld á þinginu í gær. Emmanuel Macron Frakklandsforseti skipaði Barnier forsætisráðherra í sumar en fyrir liggur að meirihlutastuðningur við Barnier er afar viðkvæmur á þinginu.

Það voru þingmenn vinstriflokksins NFP sem lögðu fram vantrauststillöguna sem naut einnig stuðnings þingmanna Sósíalistaflokksins, þar með talið formannsins Olivier Faure.

Alls hefði þurft 289 þingmenn til að greiða atkvæði með tillögunni þannig að hún myndi ná fram að ganga. Þó fór svo að einungis 197 þingmenn studdu tillöguna.

„Nú veit franska þjóðin hverjir eru í meirihluta og hverjir eru í stjórnarandstöðu,“ sagði Faure sem sakaði Barnier jafnframt um að vera „samverkamaður hægriöfgaafla“.

Þingmenn hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar, flokks Marine Le Pen, sátu hjá í atkvæðagreiðslunni, og sagðist Le Pen vilja gefa stjórninni tækifæri um stundarsakir.

Naumur meirihluti er fyrir ríkisstjórn Barnier, en það eru þingmenn jafnt af hægri- og vinstri vængnum og á miðju stjórnmálanna sem verja hana vantrausti.

Þingmenn NFP ákváðu að leggja fram vantrauststillöguna vegna óánægju sinnar með Macron og ákvörðun hans að skipa ekki forsætisráðherra af vinstri vængnum eftir þingkosningarnar í sumar þar sem vinstrisinnar náðu góðum árangri. Enginn fylking náði þó hreinum meirihluta á þinginu.

Macron ákvað að skipa reynsluboltann Barnier sem nýjan forsætisráðherra eftir kosningarnar en flestir í ríkisstjórn hans eru úr röðum hægriflokks Repúblikana og miðjuhreyfingu Macrons. Barnier var á sínum tíma aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðum um skilmála útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn mynduð í Frakklandi

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur skipað nýja ríkisstjórn undir forystu forsætisráðherrans Michel Barnier. Hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir tveimur vikum en stjórnarkreppa hefur verið í landinu frá því að gengið var til kosninga í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×