Gljúfrið, sem var friðlýst í vor í samstarfi við sveitarfélagið og fyrri eigendur, tilheyrir jörðinni Heiði sem Arctic Adventures keypti af Hverabergi ehf. og tengdum félögum. Ferðaþjónustufyrirtækið tekur við rekstri friðlýsta svæðisins 1. janúar 2025 samkvæmt tilkynningu frá félaginu.
Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, segir í samtali við Vísi að ráðist verði í uppbyggingu á göngustígum, útsýnispöllum og salernisaðstöðu í samræmi við aðgerðaáætlun Umhverfisstofnunar sem var unnin samhlið friðlýsingunni. Þá standi til að reisa þjónustumiðstöð rétt utan við friðlýsta svæðið.
Á sama tíma eigi að gæta þess að fyrirbyggja gróðurskemmdir og Umhverfisstofnun hefur nokkrum sinnum lokað gljúfrinu vegna hættu á skemmdum á gróðri meðfram gönguslóðum vegna ágangs ferðamanna á undanförnum árum.
Kaupverðið er trúnaðarmál, að sögn Ásgeirs. Eignarhald Arctic Adventures á gljúfrinu hafi ekki áhrif á möguleika keppinauta félagsins á að markaðssetja eða skipuleggja ferðir þangað.
Fyrir á Arctic Adventures náttúrufyrirbrigðið Kerið í Grímsnesi. Ásgeir segir kaupin á Fjaðrárgljúfri ekki endilega upphaf að frekari landvinningum fyrirtækisins enda séu ekki margar náttúruperlur til sölu.
„Við höfum trú á íslenskri ferðaþjónustu og áfangastöðum sem eru vel staðsettir og vinsælir. Við reynum að gera þá aðgengilegri ferðamönnum og passa upp á náttúruna á sama tíma,“ segir hann.