„Ég sjálf er það heppin að ég þarf ekki að fara í eitthvað púsluspil,“ segir Katrín Ásta Sigurjónsdóttir móðir leikskólabarns en rætt var við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún segist hafa heyrt í foreldrum sem hafi margir lýst áhyggjum af því hver eigi að sjá um börnin á meðan verkfallinu stendur. Verkfallið í leikskólunum er ótímabundið ólíkt því sem er í grunnskólunum.
„Að fara aftur í að leita í baklandið. Við höfum það ekkert öll. Þetta er svona aftur erfið staða hvert á að setja barnið á daginn. Það geta ekkert allir leitað til ömmu og afa. Einstæðir foreldrar þurfa að fara í vinnu. Maður er bara óhepinn að vera í leikskóla sem var í þessu vali núna,“ segir Katrín að lokum.
Bryndís Ýr Pétursdóttir foreldri barns í 10. bekk í Laugalækjarskóla segir það mikið áhyggjuefni að börn fái ekki kennslu í heilan mánuð og hvaða áhrif það hefur á möguleika þeirra. Þau séu flest að undirbúa sig um að sækja um í framhaldsskóla.
Hún segist einnig hafa áhyggjur af börnunum vegna alvarlegrar stöðu í samfélaginu vegna ofbeldis og vopnaburðar. Það sé ekki langt síðan það áttu sér stað voveiflegir atburðir. Þá séu sum börn í viðkvæmri stöðu en önnur.
Útilokar ekki frekari aðgerðir
Boðað hefur verið til verkfalla í átta skólum en ekki er útilokað að verkfallið muni ná yfir fleiri. Í leik og grunnskólum voru verkfallsaðgerðir samþykktar með 100 prósentum atkvæða og með 82 prósentum í FsU. Formaður Kennarasambands Íslands segir skilaboðin skýr.
„Nú getum við bara ekki beðið lengur og því miður þá hefur okkur fundist deilan vera á þeim stað að fólk þurfi að greina þá alvöru sem við horfum til í að nú komi samfélagið og fjárfesti í kennurum og efli faglegt starf og stöðugleika í skólakerfunum okkar,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ.