Peskov sagði við blaðamenn í gær að öll ríki hefðu stundað það að skiptast á búnaði við upphaf kórónuveirufaraldursins, þegar aðföng voru af skortnum skammti.
„Við sendum öndunarvélar til Bandaríkjanna, þeir sendu okkur prófin,“ sagði Peskov. Prófin hefðu á þessum tíma verið „fágæt vara“.
Samkvæmt Woodward biðlaði Pútín til Trump um að segja ekki frá því að hann hefði sent prófin, þar sem fólk myndi verða honum, Trump, reitt. Þá heldur Woodward því fram að Pútín og Trump hafi rætt allt að sjö sinnum í símann frá 2021, meðal annars eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Peskov segir þetta hins vegar ekki sannleikanum samkvæmt.
Talsmaðurinn neitaði því einnig að útsendarar Rússa væru virkir í því að skapa „ringulreið“ á götum í Bretlandi og Evrópu, líkt og Ken McCallum, forstjóri M15, sagði á dögunum.