Innlent

Talið að snjór hafi villt um fyrir ferða­mönnum

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið afturkölluð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið afturkölluð. Vísir/Vilhelm

Leit eftir tveimur hvítabjörnum við Laugarfell, norðaustan við Snæfell, sem erlendir ferðamenn tilkynntu um fyrr í dag hefur verið hætt. Lögreglan segir að mögulega hafi ferðamönnunum missýnst. Til að gæta fyllsta öryggis verður leit haldið áfram í birtingu í fyrramálið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. 

Ferðamennirnir óttaslegnir

„Lögreglu barst tilkynning um klukkan fjögur í dag frá tveimur erlendum ferðamönnum er verið höfðu við Laugafell norðaustur af Snæfelli, nærri Kirkjufossi, um tvo ísbirni á því svæði. Ferðamennirnir höfðu horfið óttaslegnir af vettvangi en gátu gefið upplýsingar um staðsetningu sína er þeir töldu sig verða ísbjarnanna varir, þá í rétt um þrjú hundruð metra fjarlægð.“

Lögreglan kannaði svæðið og athugaði hvort að einhverjir væru í skálum á svæðinu, þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið en auk þess könnuðu starfsmenn Landsvirkjunar upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Enga hvítabirni var þó að finna. 

Fundu aðeins spor ferðamanna

„Lögreglumenn fóru og til leitar á þeim stað sem ferðamennirnir tilgreindu. Spor eftir ferðamennina fundust en engin önnur þar í kring, hvorki eftir stór dýr eða smá. 

Margvíslegar kletta- og kynjamyndir eru á leitarsvæðinu og snjór yfir sem getur villt óvönum sýn. Talið er að það hafi gerst að þessu sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×