Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu sem birtist á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að niðurstaða ráðherra um skipun Mörtu byggi á heildarmati en bakgrunnur Mörthu falli best að starfslýsingu og hún því metin hæfust í starfið.
„Martha Lilja Olsen lauk B.A.-prófi í sagnfræði með íslensku sem aukagrein árið 2003 og M.A.-prófi í hagnýtum hagvísindum árið 2006. Martha Lilja lauk diplómu á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands árið 2009 og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu árið 2019 við sama skóla,” segir í tilkyningunni.
Þá hefur Martha Lilja starfað sem skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskólans á Akureyri frá árinu 2015 en þar á undan var hún deildarstjóri rekstrardeildar Skattstofu Vestfjarðaumdæmis árin 1999 til 2005, kennslustjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða á árunum 2006 til 2011 og þýðandi hjá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins frá 2011 til 2015.
„Þá hefur Martha Lilja reynslu af rekstri á sviði opinberrar stjórnsýslu og fjárhagsáætlanagerð, auk þess sem hún hefur komið að stórum verkefnum á sviði stefnumótunar. Þá hefur Martha Lilja öðlast þekkingu og reynslu á sviði jafnréttismála með vinnu við heildarendurskoðun á jafnréttisáætlun og innleiðingu jafnlaunastaðalsins við Háskólann á Akureyri, auk þess sem hún stýrði innri úttekt jafnlaunakerfis skólans fyrstu árin,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Hlutverk Jafnréttisstofu er að annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, að því er segir um hlutverk stofnunarinnar á heimasíðu Janfréttisstofu.