Upp­gjörið: Fylkir - KR 0-1 | KR fagnaði sigri gegn tíu Fylkismönnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aron Sigurðarson skoraði eina mark leiksins á 4. mínútu.
Aron Sigurðarson skoraði eina mark leiksins á 4. mínútu. vísir / anton

KR stökk yfir lækinn og vann Fylki með einu marki gegn engu. Fylkismenn misstu mann af velli í fyrri hálfleik. Vitað var fyrirfram að þeir væru fallnir og KR væri búið að bjarga sér frá falli.

KR byrjaði leikinn stórkostlega. Komu Benóný Breka fyrst í dauðafæri með góðri stungusendingu en honum tókst ekki að sóla markmanninn. Sóknin hélt áfram og skömmu síðar vann KR horn. Atli Sigurjónsson tók spyrnuna og átti stutt samspil við Aron Sigurðarson áður en sá síðarnefndi negldi boltanum í netið með vinstri fæti.

Fylkismenn komnir í klandur strax á fjórðu mínútu, voru samt ágætlega spilandi lengst af í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að skapa fá góð færi. Allt þar til á 28. mínútu þegar þeir urðu manni færri eftir að Nikulás Val Gunnarsson gerði glæfraleg mistök, missti boltann og reyndi að bjarga sér með rennitæklingu en tók ekkert nema manninn og fékk að líta rautt.

KR tók öll völd á vellinum eftir það og yfirspilaði Fylkismennina tíu. Voru mjög nálægt því að bæta marki við undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi seinni hálfleiks.

Þegar lengra fór að líða á leikinn minnkaði ákefðin í sóknunum aðeins en Benóný Breki barði menn áfram og bað um boltann, enda að eltast við gullskóinn.

KR-ingar komu öðru marki ekki að en hirtu öll þrjú stigin úr Árbænum og eru taplausir í úrslitakeppninni.

Atvik leiksins

Rauða spjaldið reyndist Fylkismönnum erfitt. Voru að spila vel fram að því en fundu aldrei taktinn aftur með aðeins tíu menn inni á vellinum.

Stjörnur og skúrkar

Flott frammistaða hjá flestöllum KR-ingum. Kantararnir sprækir, Luke Rae og Atli Sigurjónsson. Benóný Breki ógnaði endalaust og var óheppinn að skora ekki. Birgir Steinn fær stórt hrós fyrir sína frammistöðu og fiskaði líka rauða spjaldið. Þurfti því miður að víkja af velli eftir að hafa fengið heilahristing.

Ólafur Íshólm varði mark Fylkis virkilega vel og kom í veg fyrir stærra tap.

Skúrkur kvöldsins er Nikulás Val fyrir að láta reka sig af velli, hefði verið mun skemmtilegri leikur með ellefu á móti ellefu.

Stemning og umgjörð

Allt og allir til fyrirmyndar í Árbænum. Umgjörð og aðstæður sem verður sárlega saknað úr Bestu deildinni. 459 stuðningsmenn létu sjá sig og höfðu margir hátt.

Söngvarnir beindust þó aðallega að einum leikmanni Fylkis, Guðmari Gauta Sævarssyni. Þetta byrjaði þannig að vinir hans sungu að hann ætti að koma inn á. Þeir sungu það svo oft að KR-ingar ákváðu að taka undir og tóku raunar yfir. Fögnuðu hástöfum þegar hann gekk inn á völl og klöppuðu í hvert skipti sem hann snerti boltann.

Dómarar

Þórður Þorsteinn Þórðarson hélt um flautuna. Birkir Sigurðarson og Egill Guðvarður Guðlaugsson til aðstoðar. Gunnar Oddur Hafliðason á hliðarlínunni.

Hárrétt rautt spjald. Einnig hárrétt að gefa Benóný Breka ekki rautt spjald á 23. mínútu, tækling sem átti hvorki meira né minna skilið en gult spjald.

Viðtöl

Brynjar Björn: Þurfum að klára okkar tímabil með sæmd

„Svekkjandi að fá á sig mark snemma en heilt yfir frammistaðan fín. Sérstaklega milli marks KR og fram að því sem Nikulás er rekinn útaf fengum við ágætis upphlaup sem við hefðum átt að nýta okkur betur,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, aðalþjálfari Fylkis í fjarveru Rúnars Páls Sigmundssonar sem tók út leikbann. Um er að ræða tveggja leikja bann og Brynjar mun því einnig stýra liðinu í næsta.

Rauða spjaldið sem Fylkir fékk á sig á 28. mínútu breytti landslagi leiksins algjörlega.

„Það er bara álitamál [hvort rétt hafi verið að gefa rautt] og þeir mátu það þannig að þeir séu fáir til baka og langt frá boltanum. Breytti auðvitað ásýnd leiksins, við þurftum að breyta okkur skipulagi. Færðum okkar í þriggja manna vörn og töldum það gefa fleiri möguleika á upphlaupum og skyndisóknum. Ógna markinu, sem við gerðum en náðum ekki að nýta það.“

Sungið um Guðmar Gauta

Áhorfendur Fylkis og KR sammæltust um að Guðmar Gauti Sævarsson ætti að koma inn af varamannabekknum. Mikið var sungið um hann í seinni hálfleik og stuðningsmenn fengu skiptinguna sem þeir báðu um á 69. mínútu. Það var þó ekki þeirra vegna sem Brynjar ákvað að framkvæma skiptinguna.

„Nei ég var reyndar ekki að því,“ svaraði Brynjar og skellti upp úr.

„Beggi [Sigurbergur Áki Jörundsson] meiðist og við þurfum að hræra aðeins í liðinu aftur. Eða Guðmar var svosem á leiðinni inn á, planið var að hann fengi 15-20 mínútur í kvöld.“

Fallnir Fylkismenn fara vestur

Fylkir er fallinn og hefur að engu að spila í lokaumferðinni þegar þeir fara á Ísafjörð og mæta Vestra.

„Við þurfum bara að klára okkar tímabil með sæmd. Við náðum ekki úrslitum í dag en frammistaðan var góð og sama þarf bara að vera uppi á teningunum fyrir vestan. Verðum að bera virðingu fyrir mótinu, andstæðingnum og okkur sjálfum. Skila okkur almennilega í gegnum þetta mót,“ sagði Brynjar að lokum.

Brynjar Björn tók við sem aðstoðarþjálfari Fylkis á miðju tímabili af Olgeiri Sigurgeirssyni.fylkir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira