Framboð þriggja á listum Sósíalistaflokksins voru gerð ógild af Landskjörstjórn vegna þess að samþykki þeirra uppfyllti ekki skilyrði kosningalaga um að vera undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Þetta kom fram í úrskurði Landskjörstjórnar sem var kynntur í dag.
Sara Stef. Hildardóttir er skrifstofustjóri Sósíalistaflokksins og situr í kosningastjórn flokksins. Hún segir í samtali við fréttastofu að frambjóðendurnir þrír hafi samþykkt að vera á listum flokksins en vegna knapps tímaramma hafi ekki verið hægt að skila inn handskrifuðum undirskriftum. Þá hafi tæknileg vandræði valdið því að ekki gekk upp að skila inn samþykki með rafrænum skilríkjum.
Frambjóðendurnir hafi lagt sig alla fram við að staðfesta samþykki sitt en þær aðferðir hafi ekki verið teknar gildar.
„Það sem gerðist er dæmi um hvernig rafræn skilríki geta verið útilokandi, þrátt fyrir að þau geta verið mjög hagræðandi og hentug,“ segir Sara í samtali við fréttastofu. Tímaramminn hafi verið þannig að rafræn skilríki reyndust útilokandi. „Það var það sem vann gegn þeim,“ segir Sara.
Frambjóðendurnir þrír sem um ræðir eru hin 63 ára Hildur Vera Sæmundsdóttir sem er sjálfstætt starfandi og sat í 15. sæti í Suðurkjördæmi, hinn 65 ára Stefán Helgi Helgason sem er öryrki og sat í 17. sæti í sama kjördæmi og loks Guðjón Gauti Arnþórsson Jensen, læknir og ellilífeyrisþegi, sem sat í 27. sæti í Suðvesturkjördæmi.