Dagurinn 11.11. hefur síðustu ár verið kallaður Singles’ day af sífellt fleiri verslunum og er dagurinn orðinn einn stærsti verslunardagur í heimi vegna fjölda tilboða sem fólk nýtir sér. Dagurinn var upphaflega sólarhringslöng verslunarhátíð á vefverslunum í Asíu sem hefur síðan teygt anga sína hingað til lands.
Nokkur hefð er komin á daginn hér á landi og fjölmargar verslanir sem bjóða misgóð tilboð á vörum sínum í tilefni dagsins. Mörgum gremst sú staðreynd að verslanir hérlendis auglýsi tilboðin í tilefni „Singles' day“ í stað þess að nota íslenskt heiti þar sem Dagur einhleypra hefur líklega oftast verið notað.
Bragi Valdimar Skúlason, þúsundþjalasmiður sem þekkir vel til í auglýsinga- og markaðsmálum auk þess að vera íslenskufræðingur, stingur niður penna í tilefni dagsins. Hann beinir orðum sínum að þeim stjórnendum verslana sem auglýsi tilboð í tilefni „Singles' day“.
„Ágætu andlausu, óinnblásnu kaupahéðnar og enskuupplepjandi skransalar. Hér fáið þið fáeinar tillögur að íslenskum heitum á þennan eymingjans ellefta nóvember, dag einhleypra, sem þið kjósið raunar ítrekað og umhugsunarlaust að kalla „singles day“ – og já – sem þið megið gjarnan að óbreyttu troða þéttingsfast upp í greiðslugáttirnar á ykkur,“ segir Bragi Valdimar á Facebook.
Tillögur hans má sjá að neðan en færsla hans er í töluverðri dreifingu. Margir taka undir með Braga auk þess sem fólk hefur skoðanir á því hvaða íslenska heiti ætti að festa í sessi.
- Eindagi
- Stakdægur
- Einidagur
- Dagur einmanaleikans
- Einsemdadægur
- Ógiftudagur
- Kaupársdagur
- Einkaupadagur
- Álausudagur
- Einverudagur
- Staklingamessa
- Dagur hinna einstæðu
- Ókvænisdagur
- Einsa–mall
- Dagurinn eini
- Einverjadagur
- Dagur einstæðinga
- Einhleypidagur
- Lausliðugramessa
- Einkaupadagur
- Skrandagur
- 1111