The White Lotus er í leikstjórn Mike White og hafa þættirnir unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal fimmtán Emmy verðlauna og tvenna Golden Globe verðlauna.
Í fyrstu seríu fer söguþráðurinn fram á lúxushóteli á Hawaii en í annarri gerast ævintýrin og átökin á Sikiley. Tökur fyrir þriðju seríu hafa nú farið fram á Taílandi en Instagram reikningur The White Lotus birti nýverið mynd þar sem hópurinn segist hlakka mikið til að taka á móti nýjum gestum.
Í örstuttri stiklu fyrir nýju seríuna sést Lisa úr BLACKPINK í hlutverki móttökudömu af lúxushóteli. Hljómsveit hennar er með vinsælli K-pop sveitum heimsins, með sautján milljónir mánaðarlegra hlustenda á streymisveitunni Spotify og uppseldra tónleika um allan heim.
Leikkonan Jennifer Coolidge fór með lykilhlutverk í fyrstu tveimur seríunum sem seinheppna, forríka, óörugga dívan Tanya McQuoid og vann meðal annars til Golden Globe verðlauna fyrir frammistöðu sína.
Höskuldarviðvörun (e. spoiler alert) fyrir næstu málsgrein.
Aðdáendur leikkonunnar bíða spenntir eftir því að sjá hvort hún birtist eitthvað í nýrri seríu eftir átakanleg endalok í seríu tvö. Þeir þurfa þó að bíða til næsta árs en Mike White á enn eftir að gefa út endanlega dagsetningu á fyrsta þætti.