Húsið varð landsþekkt yfir nótt í júní í fyrra þegar greint var frá því að hús Jakubs Polkowski, sem er öryrki og fatlaður eftir læknamistök, hafi verið selt á nauðungaruppboði fyrir aðeins brot af markaðsvirði, eða á þrjár milljónir króna, vegna vanskila Jakubs á húsnæðisgjöldum.
Vissi ekki að hann þyrfti að borga gjöldin
Jakub sagðist þá ekki hafa vitað að hann stæði í skuld vegna þeirra gjalda. Svo fór að útburðinum var frestað um rúman mánuð en Jakub og fjölskylda fluttu í félagslegt húsnæði á vegum Reykjanesbæjar ágúst í fyrra.
Kaupandi hússins var útgerðarstjóri úr Sandgerði, sem var eindregið hvattur til þess að draga kaupin til baka. Hann sagðist í samtali við fréttastofu á sínum tíma ekki hafa gert neitt rangt, hann hafi einfaldlega mætt á uppboð líkt og hann hafi margoft áður gert.
Hann sagðist hafa gert allskonar kaup á uppboðum í gegnum tíðina og sagðist meðal annars hafa keypt sér bát á góðu verði skömmu áður.
Ágætisávöxtun á rúmu ári
Svo virðist sem útgerðarstjórinn hafi haft rétt fyrir sér um að hann hafi gert góð kaup. Húsið að Hátúni 1 hefur nú verið auglýst til sölu á fasteignavef Vísis. Uppsett verð er 83 milljónir króna, áttatíu milljónum meira en kaupverðið fyrir rúmu ári síðan.
Að sögn Hauks Andreassonar, fasteignasala sem er með húsið á skrá, er seljandinn sá sami og keypti húsið á uppboðinu á sínum tíma.
Þá segir hann að ráðist hafi verið í talsverðar endurbætur á húsinu frá því að það var keypt. Af myndum í auglýsingunni og eldri myndum má sjá að til að mynda hefur verið skipt um eldhús í húsinu. Það er blaðamanni þó stórlega til efs að stórum hluta áttatíu milljóna hafi verið varið í endurbætur.