Þjóðverjar voru með fimm stiga forskoti í þriðja riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar þegar liðið mætti Bosníu á heimavelli í dag. Bosnía var hins vegar í neðsta sætinu og aðeins búið að ná í eitt stig í fyrstu fjórum leikjunum.
Enda kom það á daginn að Þjóðverjar eru einfaldlega með mun betra lið en Bosnía. Jamal Musiala skoraði fyrsta mark þýska liðsins strax á 4. mínútu og Tim Kleindienst og Kai Havertz bættu báðir við mörkum áður en fyrri hálfleikur var allur.
Staðan í hálfleik 3-0 og Þjóðverjar héldu áfram eftir hlé. Florian Wirtz skoraði tvö mörk með stuttu millibili í upphafi hálfleiksins og áður en yfir lauk höfðu Leroy Sane og Tim Kleindienst bætt við mörkum en Kleindienst var kallaður inn í landsliðið í fyrsta sinn í október og var aðeins að leika sinn þriðja landsleik í kvöld.
Lokatölur 7-0 og Þjóðverjar áfram með fimm stiga forskot á Holland sem vann Ungverjaland 3-0 á heimavelli í kvöld. Wout Wieghorst og Cody Gakpo skoruðu úr tveimur vítaspyrnum í fyrri hálfleik í kvöld og Denzel Dumfries skoraði þriðja markið í síðari hálfleiknum. Teun Koopmeiners innsiglaði svo 4-0 sigur Hollands þegar skammt var eftir af leiknum.
Stórstjörnurnar skoruðu í Stokkhólmi
Svíar tóku á móti Slóvakíu á heimavelli sínum í Stokkhólmi í kvöld. Svíar hafa á að skipa einni mest spennandi framlínu Þjóðadeildarinnar og voru þeir Alexander Isak og Viktor Gyökeres báðir í byrjunarliði sænska liðsins í kvöld. Þar fyrir aftan byrjaði Dejan Kulusevski og svo sannarlega ógnvekjandi framlína sem Svíar hafa á að skipa.
Það voru þeir Isak og Gyökeres sem voru í aðalhlutverki í kvöld. Hinn sjóðheiti Gyökeres skoraði strax á 3. mínútu eftir sendingu frá Isak og Gyökeres launaði greiðann þegar hann lagði upp fyrir Isak í upphafi síðari hálfleiks. Isak kom Svíum þá í 2-1 en David Hancko hafði jafnað metin í millitíðinni.
Svíar unnu að lokum 2-1 sigur og fara þar með í toppsæti fyrsta riðils C-deildarinnar og eru í góðri stöðu að komast upp í B-deildina.
Öll úrslit kvöldsins í Þjóðadeildinni
A-deild
Þýskaland - Bosnía 7-0
Holland - Ungverjaland 4-0
B-deild
Georgía - Úkraína 1-1
Albanía - Tékkland 0-0
Svartfjallaland - Ísland 0-2
Tyrkland - Wales 0-0
C-deild
Aserbaijan - Eistland 0-0
Svíþjóð - Slóvakía 2-1
D-deild
Andorra - Moldavía 0-1