Enski boltinn

Fékk sjö leikja bann fyrir það sem hann sagði um eigin fyrir­liða

Sindri Sverrisson skrifar
Rodrigo Bentancur og Son Heung-Min eru liðsfélagar hjá Tottenham og Son segir hin rasísku ummæli Bentancur engu breyta um þeirra samband.
Rodrigo Bentancur og Son Heung-Min eru liðsfélagar hjá Tottenham og Son segir hin rasísku ummæli Bentancur engu breyta um þeirra samband. Getty/Charlotte Wilson

Enska knattspyrnusambandið hefur nú úrskurðað Rodrigo Bentancur, miðjumann Tottenham í sjö leikja bann vegna rasískra ummæla í garð liðsfélaga hans og fyrirliða Tottenham, Son Heung-min.

Bentancur, sem er Úrúgvæi, var einnig sektaður um 100.000 pund eða rúmlega sautján milljónir króna, vegna málsins.

Bentancur viðhafði ummælin á úrúgvæskri sjónvarpsstöð í júní, þegar stjórnandi þáttarins bað hann um Tottenham-treyju:

„Sonnys? Það gæti reyndar verið frændi Sonnys því þeir líta allir eins út,“ sagði Bentancur.

Hann baðst í kjölfarið afsökunar, í færslu á Instagram, og sagði ummæli sín vera „slæman brandara“.

Þessi „slæmi brandari“ hefur nú orðið til þess að hinn 27 ára Bentancur spilar ekki með Tottenham í enska boltanum fyrr en í fyrsta lagi um jólin. Hann missir af leikjum við Manchester City, Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, og við Manchester United í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins.

Bentancur má hins vegar spila leiki Tottenham í Evrópudeildinni. Hann hefur spilað fimmtán leiki með Tottenham á leiktíðinni og skoraði sitt fyrsta mark í síðasta leik, í 2-1 tapinu gegn Ipswich.

Samtökin Kick it Out, sem berjast gegn kynþáttaníði, hafa áður sagt að fjöldi kvartana hafi borist vegna rasískra ummæla Bentancurs, og að þau sýni útbreiddan vanda sem beinist gegn Austur-Asíu.

Son hefur sjálfur sagt að allt sé í góðu á milli sín og Bentancur.

„Ég er búinn að tala við Lolo,“ sagði Son í júní. „Hann gerði mistök, veit af því og hefur beðist afsökunar.“

„Lolo myndi aldrei viljandi segja eitthvað niðrandi. Við erum bræður og það hefur ekkert breyst. Við erum komnir yfir þetta, sameinaðir, og munum berjast saman fyrir félagið okkar sem einn maður,“ sagði Son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×