Ný krafa ráðuneytisins markar að líkindum áframhaldandi lagabaráttu en lögmenn ráðuneytisins segja, samkvæmt frétt Wall Street Journal, nauðsynlegt að aðskilja leitarvél Google frá öðrum hlutum fyrirtækisins, eins og rekstri Crome og rekstri Android stýrikerfisins.
Þegar kemur að markaði netvafra er áætlað að markaðshlutdeild Chrome sé um tveir þriðju. Allar leitir í þeim vafra fara gegnum leitarvél Google, nema notendur breyti því sérstaklega.
Sjá einnig: Google beið lægri hlut í risavöxnu einokunarmáli
Lögmenn ráðuneytisins hafa einnig krafist þess að Google verði meinað að setja eigin leitarvél ofar öðrum innan Android-stýrikerfisins sem hannað er fyrir snjalltæki eins og síma og spjaldtölvur. Þá vilja þeir einnig að Google verði bannað að greiða öðrum fyrirtækjum fyrir að vera helsta leitarvél innan annarra stýrikerfa og vafra.
Google borgar Apple til að mynda umfangsmiklar upphæðir á hverju ári fyrir það að vera leitarvél Safari-vafra Apple.
WSJ segir að um helmingur allra leita á netinu í Bandaríkjunum fari gegnum vörur þar sem Google hefur borgað fyrir að vera í fyrsta sæti.
Óljóst hvað Trump gerir
Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur lagt mikið púður í að reyna að koma böndum á stærstu tæknifyrirtæki Bandaríkjanna. Með því markmiði hefur dómsmálaráðuneytið höfðað mál gegn Alphabet, móðurfélagi Google, Apple og Amazon.
Google-málið var það fyrsta sem rataði í dómsal.
Sjá einnig: Vilja skipta Google upp vegna einokunarstöðu
Nýr dómsmálaráðherra mun væntanlega taka við störfum í Bandaríkjunum á næsta ári. Óljóst er hvort það muni hafa mikil áhrif á málaferlin gegn Google, þar sem Repúblikanar hafi heilt yfir stutt aðgerðir gegn Google, enda hófust þær árið 2020, þegar Trump var enn forseti.