Musk hefur hins vegar fundað með forsætisráðherra Kína og kynnt honum rafmagnsbíla sína. Þá hefur hann varið milljörðum dala í fjárfestingar fyrir Tesla í Kína, en stærsta rafmagnsbílaverksmiðja fyrirtækisins er í Sjanghæ, og hefur hann sagt að leiðtogar Kína „virðist í alvörunni mjög annt um hag íbúa landsins“.
Sjá einnig: Ætla að binda enda á skattaívilnun fyrir rafmagnsbíla
Aðrir væntanlegir meðlimir í ríkisstjórn Trumps, eins og Scott Bessent, sem Trump ætlar að tilnefna til embættis fjármálaráðherra, lýsti yfirvöldum í Kína nýverið sem „harðstjórn“ og sagði nauðsynlegt að beita Kínverja umfangmiklum tollum til að verja bandarísk störf.
Sjá einnig: Vill einn af höfundum „Project 2025“ við stjórn fjárlagaskrifstofu
Wall Street Journal hefur eftir kínverskum sérfræðingi um málefni Bandaríkjanna að Kínverjar bindi miklar vonir við að Musk geti reynst þeim vel, með tilliti til fjárfestinga hans í Kína og sambands hans við kínverska leiðtoga.
Bandarískir forstjórar hafa lengi verið nokkurs konar milliliðir milli yfirvalda Kína og Bandaríkjanna, þar sem Bandaríkjamenn bundu lengi miklar vonir við að geta stækkað markaði sína í Kína. Þær vonir raungerðust ekki og hafa flestir lagt þær á hilluna, ef svo má segja.
Óljóst er þó hvort Musk hafi áhuga á því að tala máli Kínverja við Trump. Eins og segir í grein WSJ er einnig mögulegt að ekkert sé að tala um, ef Trump er eins staðráðinn í því að beita Kínverja tolla eins og hann segist vera.
Trump hefur talað um að setja allt að sextíu prósenta tolla á innflutning frá Kína, eftir að hann tekur við embætti í janúar.
Musk hefur einnig sjálfur sagt að setja þurfi tolla á kínverska rafmagnsbíla til að verja bandarísk fyrirtæki.
Kína er þó mjög mikilvægt Musk. Eins og áður segir er stærsta verksmiðja Tesla í Sjanghæ og þar er um helmingur allra bíla fyrirtækisins framleiddur, samkvæmt WSJ, og þar að auki er Musk að bíða eftir samþykki yfirvalda í Kína á sjálfsstýringartækni Tesla, sem Musk hefur sagt að sé grunnurinn að framtíð fyrirtækisins.