Þetta eru verstu kosningaúrslit í sögu Sjálfstæðisflokksins sem aldrei áður hefur fengið fylgi undir tuttugu prósentum. Vinstri græn féllu af þingi eftir 25 ára veru þar og Píratar sömuleiðis eftir fimmtán ár á þingi.
Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins gætu auðveldlega myndað ríkisstjórn með rúmum meirihluta á þingi ef aðeins er horft á fjölda þingmanna. Þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn eru það hins vegar málefnin og samningahæfileikar forystufólks sem ráða för.

Það er líka sögulegt að flokkarnir sem unnu stærstu sigrana eru allir leiddir af konum. Þær Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Inga Sæland formaður Flokks fólksins mæta fyrstar til Heimis Más. Þessir þrír flokkar hafa samanlagt 36 þingmenn og því rúman meirihluta á Alþingi.
Í örðum hluta þáttarins mæta þeir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og halda spjallinu áfram með Þorgerði Katrínu. Þessir þrír flokkar gætu einnig myndað ríkisstjórn með 33 þingmönnum en lágmarks meirihluti á Alþingi eru 32 þingmenn.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sem var með þeim síðustu til að detta inn á þing sem jöfnunarþingmaður þegar öll atkvæði höfðu verið talin mætir í þriðja og síðasta hluta formannaspjallsins. Með honum verða Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna sem féllu af þingi í kosningunum og Björn Leví Gunnarsson fráfarandi þingmaður Pírata sem einnig féllu af þingi.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands hefur kallað formenn flokka sem náðu kjöri á sinn fund á morgun. Í framhaldi af þeim fundum mun forsetinn væntanlega veita einum formannanna umboð til að mynda nýja ríkisstjórn.
Formannaspjallið í heild sinni: