„Slík ráðstöfun gengur gegn grundvallarreglum á vinnumarkaði, þar sem það er launafólkið sjálft sem stofnar sín stéttarfélög,“ segir í tilkynningunni.
Þar er auk þess bent á að þegar séu í gildi kjarasamningar um öll störf á veitingahúsum. Þar sé að finna ákvæði um kjör og réttindi sem hafi náðst með áratugalangri baráttu launafólks.
„Það er ámælisvert að stéttarfélag fyrirtækja á veitingamarkaði skuli hafa samið slík réttindi burt með einu pennastriki til hagsbóta fyrir atvinnurekendur. Þar er meðal annars um að ræða verri launakjör, lakari orlofsrétt og uppsagnarrétt,“ segir í tilkynningunni og birt mynd sem tekin ef saman af Einingu-Iðju.

Þá segir í tilkynningunni að félagsgjaldið í Virðingu sé sambærilegt félagsgjöldum í önnur stéttarfélög en engu að síður virðist félagsfólk ekki ávinna sér sambærileg réttindi í sjúkrasjóði eða rétt til fræðslustyrkja eða annarra styrkja.
„Það er forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks í eiginhagsmunaskyni. Slíkt hefur ekki bara neikvæð áhrif á réttindi launafólks heldur rýrir einnig stöðu atvinnurekenda sem vilja standa heiðarlega að rekstri fyrirtækja sinna. Starfsfólk á veitingahúsum er að stórum hluta ungt fólk og fólk af erlendum uppruna, sem mikilvægt er að eigi málssvara í öflugu stéttarfélagi sem hefur burði til að standa vörð um réttindi þess,“ segir að lokum í tilkynningunni.