Hinn 54 ára White lét undrabarnið Littler hafa fyrir hlutunum í síðasta leik dagsins. Hann vann eitt sett og hefði hæglega getað unnið tvö til viðbótar.
En Littler sýndi á köflum hvers hann er megnugur og vann leikinn, 4-1. Í sextán manna úrslitunum mætir hann Ryan Joyce.
Van Gerwen, sem hefur þrívegis orðið heimsmeistari, sigraði Brendan Dolan, 4-2. Hollendingurinn spilaði vel á köflum en viðurkenndi í viðtali eftir viðureignina að hann gæti gert betur. Hann var 97,01 í meðaltal og kláraði 39,5 prósent útskota sinna.
Van Gerwen mætir annað hvort Jeffrey de Graaf eða Paolo Nebrida í sextán manna úrslitunum.
Í fyrsta leik kvöldsins sigraði Dobey Josh Rock, 4-2. Rock komst í 0-1 og 1-2 en Dobey var sterkari þegar á reyndi og vann síðustu þrjú settin. Hann mætir sigurvegaranum úr viðureign Kevin Doets og Krzysztof Ratajski í sextán manna úrslitunum.